Flugfarþega sem fór um Keflavíkurflugvöll í morgun blöskraði aðkoman þegar hann kom að brottfararhliðinu. Líkt og sjá má á myndinni sem viðmælandi mbl.is tók kl. 7:25 í morgun voru fjölmörg flug Icelandair sett hlið við hlið í brottfararsalnum í Leifsstöð. Við það myndaðist stór hópur fólks þar sem ómögulegt var að virða tveggja metra regluna.
Flugfarþegar gátu lítið við aðstæðurnar ráðið enda höfðu þeir allir fengið hin vanabundnu „go to gate“-tilmæli frá skjám flugvallarins.
Samkvæmt heimildum mbl.is voru aukinheldur litlar sem engar ráðstafanir gerðar til þess að viðhalda tveggja metra reglunni í innritunarsalnum.
Á vef Isavia sést að fjölmörg flug fóru á sama tíma eins og vani er. Til dæmis fóru þrjú flug Icelandair í loftið í morgun með tveggja mínútna millibili. Flug Icelandair til Brussel fór kl. 7:37, flug Icelandair til Frankfurt fór kl. 7:38 og mínútu síðar fór flug Icelandair til Amsterdam.
„Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga,“ segir í tilmælum sóttvarnalæknis á vef Stjórnarráðsins. Af myndinni að dæma virðast þessi tilmæli hafa verið virt að vettugi.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn höfðaði til almennrar skynsemi fólks er hann var spurður út í málið á upplýsingafundi almannavarna í dag.
„Við erum í reglulegum samskiptum við Isavia um það sem þeir geta gert. Isavia er auðvitað með leiðbeiningar og ábendingar í Leifsstöð um þetta. Það eru þessar staðsetningar þar sem myndast þrengsli og það er óhjákvæmilegt í sjálfu sér. Þar höfum við bent á að grímunotkun hjálpi aðeins til,“ sagði Víðir og bentin á að sameiginlegir fletir á þessum stöðum væru sótthreinsaðir oft.
„Þetta er ástand sem getur haldið áfram að skapast en þarna reynir líka á skynsemi hvers og eins okkar. Þurfum við endilega að vera að troðast? Við vitum að þetta er skammur tími en það er samt alveg nægur tími til þess að fara í rólegheitum í gegnum þessar afgreiðslur án þess að við þurfum endilega að vera að troðast að.“
Ekki náðist í forsvarsmenn Isavia við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Fréttin hefur verið uppfærð.