Almannavarnir hafa fengið margar ábendingar um að fólk sé ekki að virða tveggja metra reglu í verslunum, sundlaugum, kvikmyndahúsum, veitingahúsum og víðar. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á blaðamannafundi almannavarna í dag. Brýndi hún fyrir landsmönnum að passa upp á fjarlægð við annað fólk.
Fyrir helgi beindu almannavarnir þeim tilmælum til fólks að forðast tjaldsvæði og halda sig frekar á einkalóðum með vinum og vandamönnum, ef stefnt væri að ferðalögum á annað borð.
Aðspurður segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, að engin vandamál hafi komið á borð lögreglunnar vegna brota á sóttvarnareglum á tjaldsvæðum eftir því sem hann best veit. „Rekstraraðilar tjaldsvæða hafa gengið mjög hart fram í að vísa fólki frá ef það hefur náð upp í hundrað manna hámörkin sem geta verið í sóttvarnahólfi,“ segir Víðir.
„Þetta virðist hafa gengið nokkuð vel. Við sáum það líka að umferðin var töluvert minni út úr borginni [heldur en um verslunarmannahelgi í fyrra] en við áttum okkur líka á því að margt fólk var bara farið af stað,“ segir Víðir. „Landinn er náttúrulega bara búinn að vera í fríi og þvælast út um allt.“