Allir þeir átta einstaklingar sem greindust með innanlandssmit í gær voru með smit af sama stofni og áður, það er annarri hópsýkingunni sem er í gangi í samfélaginu í dag. Fimm voru í sóttkví við greiningu, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Hópsýkingin sem kom upp á Akranesi virðist vera einangruð en enginn var með virkt smit í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á Akranesi um helgina.
Aftur á móti er uppruni þessarar hópsýkingar sem nú er í gangi enn óljós og ekki liggur fyrir með tengingar fólks þrátt fyrir að um sama stofn sé að ræða.
Allir þeir sem greindust í gær voru á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim 26 sem hafa greinst með virkt smit á landamærunum frá 15. júní eru 11 búsettir á Íslandi. Ekkert virkt smit hefur greinst á landamærunum um helgina en beðið er eftir niðurstöðu mótefnamælingar hjá tveimur frá því í gær.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir fóru yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19-faraldursins hér á landi ásamt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi klukkan 14 í dag.
Fleiri þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví en áður segir Þórólfur og bendir á að það sé jákvætt. Hann segir að líklega verði um fleiri tilvik að ræða næstu daga eða þangað til þær auknu sóttvarnir sem gripið var til á föstudag fari að skila árangri. Ef ekki sést árangur er hætta á að smitum fjölgi mikið á næstunni.
Þórólfur segir að það liggi fyrir að það verði að fara að rannsaka betur hvort veiran sé vægari nú en fyrr í vetur. Engar niðurstöður sé að fá um það að utan en hægt að bera saman þýðið frá því í vetur og nú. Vonandi verði hægt að birta upplýsingar um það á næstunni.
Átta ný smit voru greind innanlands hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar eftir að hafa greinst með smit við landamærin. 80 eru því í einangrun. Alls eru 670 í sóttkví. Einn liggur á Landspítalanum með kórónuveiruna en hann er ekki á gjörgæslu.
Alls voru tekin 2.035 sýni á landamærunum í gær, 914 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 291 hjá sýkla- og veirufræðideild LSH.
Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að hækka og er nú 17,7 innanlands. Aftur á móti er nýgengi landamærasmita enn ekki nema 2,2.
Af þeim sem eru með virkt smit og í einangrun eru 57 á höfuðborgarsvæðinu og níu á Vesturlandi. Fjórir eru á Suðurnesjum og fjórir eru óstaðsettir – það er þeir eru ekki með íslenskt lögheimili. Á Norðurlandi vestra og eystra er einn í einangrun í hvoru umdæmi og það sama á við um Suðurland og Vestfirði. Enn er enginn smitaður á Austurlandi en tveir Íslendingar með lögheimili í útlöndum eru smitaðir og í einangrun hér á landi.