„Það eru enn vika eða tvær vikur í það að hægt verði að úrskurða um það í hvað stefni. En myndin lítur ekki vel út,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands sem vinnur ásamt níu manna teymi Háskóla Íslands og sóttvarnalæknis hjá Miðstöð lýðheilsuvísinda við greiningu á gögnum um veiruna.
Thor hefur borið saman tölur um nýgreind smit frá tveimur tímabilum. Annars vegar frá því í byrjun mars er faraldurinn braust út hér á landi fyrst, og síðan á tímabilinu frá 23. júlí er önnur bylgja kórónuveirunnar fór að láta á sér kræla. Hvort seinni bylgjan verði jafn umfangsmikil og sú fyrri er aftur á móti óvíst, eins og fyrr segir.
„Við erum á miklum óvissutímum. Þetta lítur verr út en ég átti von á. Ég hélt að við myndum ná að halda þessu mallandi á vægari hátt. Það var vitað að veiran myndi aldrei fara því þá hefðum við þurft að loka landinu sem aldrei hefur verið stefnan hér. Það getur vissulega komið eitt og eitt smit upp fjóra til fimm daga í röð, en núna er allt í einu komin vika af nýgreindum smitum með talsverðum fjölda. Þá finnst manni vera komin ný staða sem mér hugnast ekki vel,“ segir Thor en líkt og sjá má á þeim tölum sem Thor hefur tekið saman eru líkindin með fyrri og seinni bylgju nokkuð ískyggileg. Fríið virðist búið.
Aðspurður segir Thor að hópsmitin, m.a. á Akranesi, skekki ekki myndina heldur séu þau hluti af heildarmyndinni og að hliðstæð hópsmit í byrjun fyrri bylgjunnar hafi einnig átt sér stað. Til dæmis eftir kóræfingu.
„Stóra myndin er sú að smitum fer fjölgandi í þjóðfélaginu og ég hef áhyggjur af því. Það koma alltaf upp hópsmit og þau verða barin niður en þetta er alltaf svona og ég er ekki viss um að það sé hægt að segja að þau skekki myndina. Þau eru hluti af heildarmyndinni,“ segir Thor og bætir við: „Það er frekar verra með smitin sem ekki hefur verið hægt að flokka í hópa.“
Vissulega séu tölurnar sem unnið er með þó lágar.
„Þetta eru lágar daglegar tölur en þær sýna að þetta er að malla af stað. Það er alveg rétt að við á Íslandi glímum við þá staðreynd að þetta eru lágar tölur og við erum fá, en mynstrið er ekkert svo ólíkt, það verður að horfa á það,“ segir Thor.