Pétur Magnússon
„Þetta var það versta sem ég hef lent í, í rekstri tjaldsvæðis í tuttugu ár,“ segir Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Hamra, rekstraraðila tjaldsvæðanna á Akureyri, í Morgunblaðinu í dag.
Þegar hertar aðgerðir gegn kórónuveirunni voru tilkynntar fyrir helgi voru um þúsund manns á tjaldsvæðum á Akureyri. Nýjar reglur um samkomumörk tóku gildi tæplega sólarhring síðar, og til að mæta þeim þurfti að vísa um 400 gestum í burtu.
„Það er merkileg reynsla að vera búinn að reyna að fjölga fólki á tjaldsvæðum og lenda svo í því að þurfa að reka fólk í burtu,“ segir Tryggvi. Þegar umsjónarmenn tjaldsvæða áttuðu sig á því að fækka þyrfti gestum tóku þeir til þess ráðs að hætta að selja meira en eina nótt. Svo þeir sem voru þegar á tjaldsvæði en höfðu ekki greitt fyrir áframhaldandi dvöl fengu ekki að borga fyrir næstu nótt og var vísað í burtu.
Hann segir að flestir hafi sýnt því skilning, en aðrir hafi orðið reiðir. „Það leit ekki vel út á tímabili því fólk vildi ekki fara, en við vorum í samvinnu við lögregluna og þetta gekk án þess að það færi út í læti,“ segir Tryggvi í blaðinu. „Samt sem áður tók þetta ansi mikið á.“