Ragnhildur Þrastardóttir
Erfitt er að segja hvort önnur bylgja kórónuveirufaraldursins hérlendis sé skæðari eða vægari en fyrsta bylgjan, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem vill kanna málið betur. Fleiri hafa greinst smituð af kórónuveirunni án þess að sýna mikil einkenni nú en áður, að sögn Þórólfs, og þá virðist yngra fólk frekar greinast smitað í þessari bylgju veirunnar en þeirri sem geisaði hér á landi fyrr á árinu.
„Nú erum við að taka meira af sýnum og erum örugglega að finna meira af einkennalitlu fólki en við vorum að finna í vetur þótt við höfum tekið mikið af sýnum þá,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Ýmislegt getur orðið til þess að faraldurinn virðist vægari hérlendis nú en áður, að sögn Þórólfs.
„Þá virðist yngra fólk frekar vera að greinast nú heldur en áður þannig að það geta verið fjölmargir þættir sem gera það að verkum að hún virðist vera eitthvað vægari. Hvort hún sé það eða ekki er ómögulegt að segja en það er það sem við viljum aðeins kanna betur – hvort við getum eitthvað svarað þeirri spurningu.“