Rannsókn Oxfordháskóla á 9 þúsund heilbrigðisstarfsmönnum sýndi fram á að þeir sem hefðu fengið væg einkenni COVID-19 væru ólíklegri til að fá jákvæða svörun út úr mótefnamælingu en þeir sem hafi sýnt meiri einkenni. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að niðurstöður rannsóknarinnar sýni nákvæmlega það sama og rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á mótefni veirunnar í Íslendingum.
Spurður hvort það gefi til kynna að veiran hafi verið útbreiddari í íslensku samfélagi en áður var talið segir Þórólfur:
„Allt upp í helmingur þeirra sem hafa sýkst hafa fengið það lítil einkenni að þeir hafa ekki leitað til heilbrigðiskerfisins eða hafa verið einkennalausir þannig að klárlega eru mjög margir sem sýkjast sem fá lítil sem engin einkenni.“
Þórólfur segir að hann hafi ekki fengið fregnir um að þeir sem hafi fengið staðfesta sýkingu hafi sýkst aftur, hvort sem þeir hafi myndað mótefni með sinni sýkingu eða ekki.
„Þess vegna höfum við sagt að allir sem hafa fengið staðfesta sýkingu, burtséð frá því hvort þeir hafi sýnt mikil eða lítil einkenni, séu ólíklegri til að fá sýkingu aftur.“
Einhverjir sem sýkst hafa af veirunni hafa fengið neikvæða svörun úr mótefnamælingu. Spurður hvers vegna svo erfitt reynist að greina mótefni veirunnar segir Þórólfur:
„Aðferðir til að mæla mótefni eru mjög mismunandi og það hefur Íslensk erfðagreining líka sýnt fram á með því að prófa mismunandi próf. Sum eru betri en önnur, sum eru næmari og líklegri til að sýna mótefni en önnur og það er bara það sem við þurfum að vera á varðbergi yfir í svona prófum,“ segir Þórólfur sem tekur fram að hérlendis sé næmasta mótefnaprófið sem til sé í notkun. Prófið sem er notað nú er það sama og var notað í upphafi, hið sama má segja um PCR prófið sem notað er til að greina smit.