Hópur tengdur Frjálshyggjufélaginu undirbýr nú mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.
Jóhannes Loftsson, formaður Frjálshyggjufélagsins og einn skipuleggjenda mótmælanna, segir að kveikjan að þeim sé óánægja með íþyngjandi inngrip ríkisvaldsins til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Stjórnvöld hafi ekki tekið nægilegt tillit til hagkerfisins og þegar upp er staðið verði það þjóðinni dýrkeyptara en að fara í hófstilltari aðgerðir.
Jóhannes segist horfa til Svíþjóðar sem fyrirmyndar í þeim efnum. Þar hafi fólk sjálft þurft að taka ábyrgð á eigin sóttvörnum og sú aðferð hafi virkað. „Það sem ruglar allan samanburð við Svía er að þeir klikkuðu á að stöðva útbreiðslu á spítölum og heilbrigðisstarfsfólk fékk ekki nægan útbúnað,“ segir Jóhannes í Morgunblaðinu í dag, en hann sé ekki að leggja það til.