Hin árlega Hólahátíð, sem halda átti 15. til 16. ágúst næstkomandi, hefur verið felld niður vegna kórónuveirufaraldursins. Þó verður messan tekin upp í kirkjunni og útvarpað viku seinna eins og til stóð.
Þetta kemur fram í frétt á kirkjan.is. Hólahátíð er jafnan fjölmenn hátíð og því talið ástæðulaust að efna til hennar í ljósi samkomubannsins sem miðast nú við 100 manns og tveggja metra nálægðarreglu milli fólks.
Hólahátíð átti að þessu sinni að hefjast á laugardagsmorgni með pílagrímagöngu eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd að Hólum. Á sunnudeginum stóð til að halda tónleika í Hóladómkirkju. Þar átti ennfremur að vera hátíðarmessa klukkan 14 og hátíðarsamkoma á sama stað klukkan 17.