Krefjast betri upplýsingamiðlunar til erlends vinnuafls

Efling krefst átaks í upplýsingamiðlun til aðflutts vinnuafls vegna kórónuveirufaraldursins.
Efling krefst átaks í upplýsingamiðlun til aðflutts vinnuafls vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra erindi þar sem þess er krafist að stjórnvöld tryggi skilvirkari vinnubrögð við birtingu mikilvægra upplýsinga á erlendum tungumálum í tengslum við kórónuveiruna. 

Fram kemur í tilkynningu frá Eflingu að erindið hafi einnig verið sent til fleiri ráðherra og landlæknis. 

Í erindinu segir að aðflutt fólk á Íslandi telur hátt í 50.000 einstaklinga sem ekki geta sinnt hlutverki sínu nema með greiðum upplýsingum um smitvarnir. Sólveig Anna bendir einnig á að hátt í 15.000 erlendir ferðamenn dveljast hér á landi hverju sinni í sumar og njóta þjónustu aðflutts vinnuafls á ferðalögum sínum um landið. „Okkur öllum ætti því að vera ljóst hversu mikilvægt er að tryggja greiðan aðgang að upplýsingum á erlendum tungumálum,“ segir Sólveig. 

Hún segir stjórnvöld hafa að mörgu leyti staðið sig vel þegar kemur að upplýsingamiðlun en að sá „misbrestur hefur þó verið á vinnubrögðum upplýsingateymis stjórnvalda að oft og einatt hefur fólk með annað móðurmál en íslensku þurft að bíða dögum saman eftir þýðingum á nýjustu upplýsingum á vefnum.“

Efling krefst þess að stjórnvöld geri „gagnskör að því að tryggja skilvirkari vinnubrögð við birtingu mikilvægra upplýsinga á erlendum tungumálum í tengslum við COVID-19 á vef sínum og í gegnum aðra miðla.“ Efling bendir einnig á að hægt sé að senda mikilvægar smitvarnaupplýsingar í tölvupósti til þeirra sem eru í tengslum við aðflutt fólk, meðal annars félagasamtök og verkalýðsfélög. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert