Ekki hefur mikið verið um grasfrjó í lofti að undanförnu samkvæmt nýjustu frjótölum, sem taka mið af frjói á hvern fermetra. Síðastliðna viku hafa þau orðið 17 þegar mest var, 1. og 2. ágúst en 2 þegar minnst var, 29. júlí síðastliðinn.
Hæstu frjótölur ársins voru í lok júní, þar sem um 160 frjókorn á fermetra mældust í Garðabæ, en samkvæmt meðaltali áranna 2011 til 2019 ná umsvifin almennt hámarki í lok júlí.
„Í veðrinu sem hefur verið undanfarna daga er ekki mikið um grasfrjó,“ segir Ellý Guðjohnsen líffræðingur. „Grasfrjóin eru enn þá í loftinu. Ef það hlýnar og er bjart og þurrt þá dreifast þau betur,“ segir Ellý, í Morgunblaðinu í dag.