Öllum sýningum frestað

Öllum leiksýningum Borgarleikhússins hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna …
Öllum leiksýningum Borgarleikhússins hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna samkomutakmarkanna mbl.is/Kristinn Magnússon

Öllum leiksýningum Borgarleikhússins hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna samkomutakmarkana. Sömuleiðis hefur sýningum Þjóðleikhússins verið frestað.

Endurfrumsýna átti sýninguna Níu líf í Borgarleikhúsinu hinn 13. ágúst en nú hefur því verið slegið á frest. Allir miðar á sýningar leikhússins eru tryggðir. Starfsfólk Borgarleikhússins sneri aftur til starfa í gær eftir sumarfrí. Leikhússtjóri Borgarleikhússins segir stöðuna erfiða og að sviðslistafólk hafi þurft að líða einna mest fyrir samkomubannið. 

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri sagði í samtali við mbl.is að mikil óvissa ríkti og enn lægi ekki fyrir hvenær hægt yrði að hefja sýningar nú í haust. „Við nálgumst þessi mál auðvitað af samfélagslegri ábyrgð og í samræmi við tilmæli stjórvalda. Við vöndum okkur við þetta verkefni eins og öll önnur. Á sama tíma nýtum við tímann til að undirbúa enn frekar nýtt og glæsilegt leikár og fjölbreyttar sýningar sem boðið verður upp á í vetur. Við höfum frestað upphafi nýs leikárs, kynningu þess og upphafi kortasölu. Það mun allt fara í gang um leið og aðstæður leyfa.“ Hefja átti æfingar í Þjóðleikhúsinu í gær á Kardemommubæ og Framúrskarandi vinkonu en þeim hefur verið frestað þar til staðan verður ljósari.

Aðspurður segist Magnús hæstánægður með starfsfólk leikhússins: „Það er baráttuhugur í þjóðleikhúsfólki!“ segir Magnús bjartsýnn. „Við erum með frábæran starfsmannahóp sem hefur axlað ábyrgð vegna þessara samkomutakmarkana og á sama tíma unnið af metnaði að undirbúningi komandi verkefna. Á sama tíma höfum við fundið fyrir mikilli eftirvæntingu leikhúsgesta fyrir nýju leikári sem við getum vonandi hleypt af stokkunum fyrr en síðar.“ Magnús segist vongóður um að það verði fyrr en síðar í haust.

Magnús Geir Þjóðleikhússtjóri
Magnús Geir Þjóðleikhússtjóri Ljósmynd/Hari

Æfingar hafnar að nýju

„Þetta er engin óskastaða,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, í samtali við mbl.is. Hún telur að listamenn og sviðslistafólk hafi orðið hvað verst úti vegna samkomutakmarkana. „Við bíðum bara fregna á hverjum degi eins og allir aðrir landsmenn og vonumst til þess að geta farið á fullt sem fyrst.“ Brynhildur segir að þrátt fyrir stöðuna standi starfsfólk Borgarleikhússins keikt en allir starfsmenn leikhússins sneru aftur til starfa í gær eftir sumarfrí. „Við höfum nýtt tímann síðan í mars til að gera fínt hjá okkur. Forsalurinn okkar hefur verið stórbættur og við erum spennt að taka á móti leikhúsgestum þegar aðstæður leyfa,“ segir Brynhildur jákvæð.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins
Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýninguna Níu líf átti að endurfrumsýna 13. ágúst en verkið var frumsýnt 13. mars síðastliðinn og náðist að sýna það þrisvar áður en samkomutakmarkanir tóku gildi í marsmánuði. Nú hefur endurfrumsýningunni verið frestað um óákveðinn tíma. „Níu líf er tilbúin og hún verður fyrsta sýning sem við frumsýnum þegar hægt er," sagði Brynhildur við blaðamann mbl.is. Jafnframt sagði hún að æfingar á örfáum sýningum stæðu yfir. Æfingar á sýningunni Veisla eru hafnar, en í henni fara aðeins fimm leikarar með öll hlutverk. Svo hefjast æfingar á sýningunni Oleönnu innan skamms, en í henni leika aðeins tveir leikarar, þau Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir. „Við erum svo bara með tveggja metra fjarlægð milli leikara og sprittbrúsana á lofti,“ segir Brynhildur og hlær.

Sýningin Níu Líf er um æviskeið tónlistarmannsins Bubba Morthens
Sýningin Níu Líf er um æviskeið tónlistarmannsins Bubba Morthens mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynhildur segir jafnframt gleði og léttúð ríkja innan veggja leikhússins. Hún segir Íslendinga heppna að geta notið sumarsins í íslenskri náttúru. „Ég hef verið í sambandi við kollega mína erlendis sem eru innilokaðir á heimilum sínum og geta ekkert æft eða gert neitt. Ég held að við Íslendingar föttum ekki hvað við erum heppin.“

Óvíst er hvenær sýningar hefjast að nýju í Borgarleikhúsinu en Brynhildur segir að leikhúsið sé í góðu sambandi við heilbrigðisyfirvöld og fari í einu og öllu eftir reglum og ráðum þeirra. Þrátt fyrir að öllum sýningum hafi verið frestað segir borgarleikhússtjóri að húllumhæið verði bara þeim mun meira þegar farið verður að slíta sviðsfjölum leikhússins að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert