Ragnhildur Þrastardóttir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aðspurður að það sé áhyggjuefni að kórónuveiran hafi á nýjan leik náð að dreifa sér til allra landsfjórðunga. Í dag greindi mbl.is frá því að fyrsta smit veirunnar í annarri bylgju faraldursins hérlendis hefði greinst á Austurlandi í gær.
„Það er áhugavert að sjá að þessi sama undirtegund af veirunni hafi náð að dreifa sér mjög víða og skýtur upp kollinum víða, oft er ekki hægt að sjá nein tengsl á milli smitaðra einstaklinga,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Enn er á huldu hvernig sú undirtegund sem nú hefur breitt úr sér um allt land barst til landsins.
Þórólfur segir skýringar á því að undirtegundin hafi náð að dreifa sér mjög víða og á milli ótengdra einstaklinga.
„Það náttúrulega skýrist af því að [veiran] er oft einkennalítil og einkennalaus og þannig getur hún dreifst á milli. Það er bara það sem er viðbúið af þessari veiru.“
Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur rétt að um samfélagssmit væri að ræða, það skipti þó ekki öllu hvort rætt væri um hópsmit, eins og hann hefur helst kosið að kalla það, eða samfélagssmit.
„Mér finnst það ekki vera stóra málið í þessu en það er vissulega rétt að hún er dreifð um landið.“