Kári styrkir Björgvin Pál um fimm milljónir í forvarnarstarfi

„Ástandið er ekki frábært, sérstaklega á börnunum okkar,“ segir handboltamaðurinn og ólympíuhetjan Björgvin Páll Gústavsson sem hlaut í dag styrk upp á tæpar fimm milljónir kr. til að ræða við börn í áhættuhópum í grunnskólum. Þar vísar hann til nýlegra rannsókna á andlegri líðan í tengslum við faraldur kórónuveirunnar.

Styrkurinn kemur frá Velferðarsjóði barna sem var stofnaður skömmu eftir aldamót af Íslenskri erfðagreiningu. Kári Stefánsson, stjórnaformaður sjóðsins, sagði í samtali við mbl.is eftir afhendinguna að Björgvin væri þeim hæfileikum búinn að geta náð til barna með boðskap sínum. „Ég er alveg viss um að hann á eftir að eiga auðvelt með að ná til ungs fólks og það er það sem skiptir máli. Það er enginn vandi að standa fyrir framan ungt fólk og segja þeim alls konar hluti ef maður hefur ekkert erindi til þeirra. Ég held að þetta sé alveg ofboðslega þarft og ég vona að það fylgi fleiri á eftir.“ Frá stofnun hefur sjóðurinn veitt um 1.100 milljónir til góðra málefna.

Björgvin mun til að byrja með halda fyrirlestra sína í skólum í Kópavogi þar sem rætur hans liggja en hann hefur tjáð sig um æsku sína þar sem hann lenti í miklum erfiðleikum og fyrir skömmu gaf hann út bókina Án filters þar sem hann segir frá reynslu sinni. Markmiðið er að ná til unglinga sem eiga á hættu að lenda í erfiðleikum og neyslu, mynda tengsl við þá og freista þess að beina þeim inn á réttar brautir í lífinu. Verkefnið er tvískipt: annars vegar er það Vopnabúrið og Við sem lið en í það ætlar Björgvin Páll að safna krökkum til að vinna persónulega með.

Í myndskeiðinu er rætt við Björgvin Pál um styrkinn og verkefnið sem hefst hinn 21. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert