Dótturfélög Samherja í Namibíu töpuðu nærri einum milljarði króna á umsvifum sínum á árunum 2012-2018. Þetta sýna samantekin reikningsskil sem nú liggja fyrir og Morgunblaðið hefur fengið aðgang að.
Rekstrartekjur dótturfélaga Samherja í Namibíu námu 41,1 milljarði króna og rekstrarkostnaður 38,9 milljörðum. Að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsgjalda, tekjuskatts o.fl. var afkoma félaganna því neikvæð á tímabilinu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, þessar tölur staðfesta að fullyrðingar sem komið hafa fram á undanförnum mánuðum þess efnis að fyrirtækið hafi „arðrænt“ samfélagið í Namibíu séu ekki á rökum reistar. Umsvifin hafi skilað miklum fjármunum inn í samfélagið þar í landi.
„Uppgjörið sýnir að ekki er fótur fyrir þeim alvarlegu ásökunum. Ásökun um arðrán í Namibíu var mjög þungbær fyrir stjórnendur Samherja. Tölurnar sýna hins vegar að greiðslur til namibískra aðila á tímabilinu námu rúmlega 21 milljarði króna á gengi dagsins í dag.“