Lítil heimasmíðuð flugvél skemmdist þegar flugmaður lenti henni á ísilögðu Þingvallavatni í mars sl. Flugmaðurinn reyndi ásamt öðrum að laga vélina og taka á loft á ný en vélinni hlekktist aftur á. Engan sakaði.
Þetta kemur fram í bókun, sem Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur birt um atvikið. Flugmaðurinn fór ásamt farþega frá fisflugvellinum á Hólmsheiði í Landmannalaugar og var önnur flugvél í samfloti. Á bakaleiðinni ákvað flugmaðurinn að lenda á Þingvallavatni, sem var ísi lagt. Krapi var á yfirborði íssins og skemmdist nefhjólið í lendingunni.
Flugmaður hinnar vélarinnar hélt áfram leið sinni til Reykjavíkurflugvallar eftir að hafa fullvissað sig um í gegnum fjarskipti að í lagi væri með þá sem voru í vélinni sem lenti. Hann hringdi í annan mann eftir aðstoð og kom sá á vettvang á vélsleða um þremur stundum síðar. Reyndu þeir að laga nefhjólslegginn og taka á loft af ísnum en leggurinn lagðist saman aftur og þá skemmdist skrúfan, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.