„Á Norðurlandi hefur ekki verið mikið af matsveppum að hafa fyrr en allra síðustu daga, þá hefur lerkisveppurinnn verið að spretta upp,“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, og bætir við að kúalubbinn sé einnig kominn upp.
Þeir sem hyggi á sveppatínslu verði að fara rólega af stað, þekkja matsveppina og borða ekki of mikið af þeim til að byrja með.
„Sumir einstaklingar geta ekki þolað góða matsveppi. Það geta alltaf komið ofnæmisviðbrögð eða óþol, þannig að fólk fær illt í magann eða útbrot,“ segir hún.
Til að forðast slíkt er hægt að skera í burtu þroskaðri helming sveppsins, þar sem óhreinindi og vatn kann að safnast fyrir.
„Þegar blaut ferskvara stendur í náttúrunni þá safnast í hana bakteríur. Ef annar helmingurinn er ungur og hress en hinn orðinn þroskaðri og mýkri er hægt að skera í burtu skemmdir,“ segir Guðríður Gyða um neyslu matsveppa í Morgunblaðinu í dag.