Hjólastígur sem liggur í gegnum Svartaskóg í Fossvoginum hefur verið til umræðu á samfélagsmiðlum, en stígurinn þykir óvenju háll í rigningu.
Erlendur S. Þorsteinsson tók þátt í umræðum sem sköpuðust um stíginn á facebookhópnum Reiðhjólabændur.
Í samtali við mbl.is segir Erlendur að Reykjavíkurborg hafi verið látin vita af stöðu stígsins.
„Það höfðu verið framkvæmdir þarna í nokkrar vikur og meðan á þeim stóð var það almennt séð þannig að verktakinn stóð sig ágætlega í að merkja hjáleiðir og tryggja að hægt væri að komast þarna í gegn. Síðan þá hefur verktakinn bara gengið frá verkinu, skildi stíginn eftir hálfónýtan í beygju, það vantaði malbik og var bara möl og öll skilti voru fjarlægð eins og þetta væri bara búið,“ segir Erlendur og bætir við að fjöldi ábendinga hafi verið sendur til Reykjavíkurborgar en enn hafi ekki verið gripið til neinna aðgerða.
Erlendur segir óvíst hvort um millibilsástand sé að ræða eða ekki.
„Ef þetta á að vera frágengið malbik þá er það ójafnt, hált og fyllir ekki nógu vel út í beygjurnar. Ef þetta er eitthvað tímabundið þá er þetta samt áfram hált og það kemur oftar rigning með haustinu. Þetta er ekki öruggt núna, misjafnt og hált í bleytu og fólk getur bara dottið,“ segir Erlendur.