Segjast geta fjölgað íbúðum um 3.000 í Breiðholti

Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar hefur nú kynnt tillögur sínar að langtímauppbyggingu í …
Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar hefur nú kynnt tillögur sínar að langtímauppbyggingu í Breiðholti. mynd/Reykjavíkurborg

Hverfisskipulag Reykjavíkur kynnti fjölmiðlum í dag tillögur sínar að uppbyggingarverkefni í Breiðholti. Lagt er til að fjölga íbúðum í hverfinu um þrjú þúsund á næstu árum. Húseigendum og húsfélögum skal veita heimildir til þess að breyta og bæta eignir með það að markmiði að fjölga þeim og gera þær fjölbreyttari. Deildarstjóri hverfisskipulags borgarinnar segir í samtali við mbl.is að kostnaður við verkefnið verði ekki mikill. Að mestu sé verið að veita heimildir til framkvæmda en ekki ráðast til þeirra.

Í samtali við mbl.is segir Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar, að íbúum Breiðholts hafi fækkað úr 25 þúsund í 20 þúsund á síðustu árum. Hann segir jafnframt að tækifæri séu til að snúa þeirri þróun við. Auka eigi þjónustu við íbúa og veita þeim heimildir til húsbygginga á lóðum sínum.

Reynt að losa um hjúkrunarrými

Samkvæmt tillögum hverfisskipulags munu húseigendur stærri húsa í Breiðholti t.a.m. geta byggt við hús sín og leigt nýja húsnæðið út. Talið er að í Neðra-Breiðholti sé pláss fyrir um 120 slíkar íbúðir í hverfinu. Þá kemur til greina að heimila byggingu nýrra hæða ofan á lyftulaus fjölbýli gegn því að sett verði þar lyfta. Þannig muni aðgengi að húsnæði stórbatna og mögulega losna um hjúkrunarrými þar sem fólk sem í þeim dvelur geti þá flutti inn í umrætt húsnæði.

Í Arnarbakka er fyrirhugað að íbúðir rísi utan um verslun …
Í Arnarbakka er fyrirhugað að íbúðir rísi utan um verslun og þjónustu Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Einnig er fyrirhuguð uppbygging í hverfiskjarnanum við Arnarbakka þar sem íbúðir væru á efri hæð og hluta jarðhæðar. Verslun og þjónusta yrði annars staðar á jarðhæð. Lagt er til að stúdentaíbúðir rísi á svæðinu.

Einnig kveða tillögurnar á um að ráðast megi í byggingu nýs leikskóla við pólsku búðina í Fellagörðum. Þar sé vannýtt verslunarhúsnæði sem lífga megi við.

Kostnaður verði lítill

Verkefninu eru ekki sett nein verklok enda segir Ævar að framkvæmdir séu „mestmegnis í höndum íbúa“, einu framkvæmdirnar sem Reykjavíkurborg ætli sér að ráðast í samhliða verkefninu séu við svokölluð græn svæði. Á þeim svæðum þurfi að ráðast í einhverja vinnu en Ævar telur kostnað við það ekki vera umtalsverðan.

Vefsíðu verkefnisins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert