Umferð ökutækja minnkaði nokkuð í júlímánuði bæði á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýbirtum tölum Vegagerðarinnar.
Fram kemur að umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí dróst saman um 3,4 prósent frá sama mánuði fyrir ári og var einnig minni en hún var í síðastliðnum júnímánuði.
Umferðin á hringveginum dróst einnig saman í júlí frá sama mánuði fyrir ári og minnkaði um sama hlutfall og á höfuðborgarsvæðinu eða 3,4% samkvæmt umferðarmælum Vegagerðarinnar.
Í ljós kom þó að umferðin á hringveginum var töluvert meiri í júlí- en júnímánuði eða 13 prósentum meiri. Að mati sérfræðinga Vegagerðarinnar er líklegt að meginástæða þessa sé aukinn akstur landsmanna í sumarfríum í júlí og einnig hefur ferðamönnum fjölgað og þar með umferð þeirra um þjóðvegi landsins.
Bent er á varðandi samdráttinn í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu að hugsanlega hafi áhrif að höfuðborgarbúar sóttu í auknum mæli út á land í sumarorlofi í júlí.
Frá áramótum hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu dregist saman um tæp níu prósent og útlit er fyrir að gríðarlegur samdráttur verði á umferðinni á hringveginum í ár, sem að mati Vegagerðarinnar gæti orðið um tíu prósent þegar upp er staðið.