Vísa tugum frá tjaldsvæðinu í Ásbyrgi

Mynd frá tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Myndin er tekin áður en …
Mynd frá tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Myndin er tekin áður en samkomutakmörk tóku gildi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Hámarksfjöldinn á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi er hundrað en það streymir að fólk og kemur að lokuðum dyrunum því við getum ekki tekið við fleira fólki,“ segir Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum. 

Ásbyrgi er innan þjóðgarðsins en þangað hefur mikill fjöldi fólks lagt leið sína síðustu daga, aðallega Íslendingar, og er fjöldinn svo mikill að landverðir hafa þurft að vísa tugum, ef ekki hundruðum frá á síðustu dögum. 

„Þetta eru helst Íslendingar og þeir eiga að vera upplýstir um stöðuna. Það er eins og margir séu ekki alveg með á nótunum varðandi þessa stöðu sem er uppi akkúrat núna og þessar hertu fjöldatakmarkanir og jafnvel að fólk sé ekki að virða þær reglur sem eru settar fram,“ segir Guðmundur. 

Langt í næstu stóru tjaldsvæði

Honum þykir leiðinlegt að vísa þurfi fólki frá vegna þess að langt sé í næstu stóru tjaldsvæði. Sumir taka illa í það þegar þeim er vísað frá en aðrir sýna því skilning. 

„Tjaldsvæðið er bara pakkfullt. Við ráðum fólki frá því að koma hingað nema bara í dagsferðir.“

Ástæða fjöldatakmarkana á tjaldsvæðinu eru aðgerðir sem tóku gildi fyrir verslunarmannahelgi vegna fjölgunar kórónuveirusmita í samfélaginu. Þær kveða t.a.m. á um að samkomur 100 eða fleiri séu óheimilar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert