Íbúum á Reykjanesskaga hefur fjölgað hratt undanfarið og fjölgunin er mest í Reykjanesbæ þar sem íbúar eru núna 19.598 og hefur fjölgað um 175 frá áramótum. Reykjanesbær er fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins eftir að íbúar þar urðu fleiri en á Akureyri í febrúar á síðasta ári.
Hlutfallslega var mesta fjölgunin í sveitarfélaginu Vogum þar sem íbúum fjölgaði um 29, sem jafngildir 2,2%, og þar eru íbúar nú 1.337. Nýlega var skóflustunga tekin fyrir 2.500 manna byggð og gert er ráð fyrir því að um það bil 800 íbúðir rísi á svæðinu á næstu 10 árum.
„Í sveitarfélaginu Vogum hefur eftirspurn eftir fasteignum aukist töluvert undanfarin ár. Sveitarfélagið úthlutaði lóðum fyrir um 180 íbúðir í blandaðri byggð á árunum 2018 og 2019. Nú þegar er búið að taka í notkun 40 til 50 íbúðir á svæðinu, sem ýmist hafa verið byggðar af einkaaðilum eða verktökum. Vel hefur gengið að selja þessar íbúðir,“ er haft eftir Ásgeiri Eiríkssyni, bæjarstjóra í Vogum, í tilkynningu.
Íbúum í Grindavík hefur fjölgað um 41 einstakling frá áramótum, sem jafngildir 1,2%, og eru þeir nú 3.549 talsins.
„Fasteignamarkaðurinn í Grindavík hefur verið líflegur undanfarna mánuði. Framboð á minni íbúðum hefur verið takmarkað, en nú er talsverður fjöldi slíkra íbúða í byggingu. Það má búast við því að íbúum Grindavíkur haldi áfram að fjölga þegar þær eignir koma á markaðinn,“ segir Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík.
Suðurnesjabær, sem nýlega fagnaði tveggja ára afmæli sínu, bætir við sig 62 nýjum íbúum og nemur fjölgunin 1,2%. Þar búa nú 3.648 einstaklingar og er Suðurnesjabær því annað fjölmennasta sveitarfélagið á Reykjanesskaga.