Icelandair flutti ríflega 73 þúsund farþega í nýliðnum júlímánuði og fjölgaði þeim mjög milli mánaða sem tóku sér far með félaginu. Í júnímánuði voru farþegarnir aðeins 18.494.
Þrátt fyrir hinn mikla vöxt milli mánaða fækkaði farþegum í júlímánuði um 87% miðað við sama mánuð í fyrra. Hinn aukni farþegafjöldi milli mánaða gerir það að verkum að sætanýting jókst mikið eða úr 50,9% í júní í 70,3% í júlímánuði.
Hið aukna nýtingarhlutfall skýrist einnig af því að fyrirtækið hefur dregið gríðarlega úr framboðnum sætiskílómetrum. Nemur samdrátturinn m.v. þann mælikvarða 89%.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair var fjöldi farþega til Íslands um 58.200 í júlí en aðeins um 13.300 manns fóru frá landinu yfir sama tímabil, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.