Ísland hætti að selja upprunaábyrgðir

Búrfellsvirkjun. Fyrirtækið segist vilja að Ísland hætti að selja upprunaábyrgðir …
Búrfellsvirkjun. Fyrirtækið segist vilja að Ísland hætti að selja upprunaábyrgðir sínar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hættið að selja upprunaábyrgðir. Þær halda aftur af framleiðslu grænnar orku í Belgíu!“ segir í tilkynningu belgísks fyrirtækis, en fulltrúi þess er mættur til landsins í dag til að reyna að heimsækja forsætisráðherra og skila upprunaábyrgðum sem keyptar voru í Belgíu.

Fyrirtækið sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku og vill vekja Íslendinga til umhugsunar um afleiðingar orkustefnu þeirra.

Er aðgerðin endapunktur samfélagsmiðlaátaks Bolt í Belgíu, sem gengið hefur undir myllumerkinu #stopsjoemelstroom (eða #stoppumsvikaorku), en Bolt hét því að skila til Íslands 1.000 upprunaábyrgðarbréfum yrði herferðinni deilt þúsund sinnum. Sá áfangi náðist í sumar og loforðið þykir því nú uppfyllt.

„Íslendingar vita að allt þeirra rafmagn er grænt. Belgískir neytendur sem kaupa rafmagn tengt grænum íslenskum upprunaábyrgðum telja ranglega að rafmagn þeirra sé líka sannarlega grænt. Staðreyndin er að er bara hægt að framleiða og nota græna orku einu sinni, rétt eins og maður notar ekki sömu krónuna tvisvar. Þessi tvöfeldni er ekki grænum orkuskiptum í Evrópu til góða,“ er í tilkynningu haft eftir Pieterjan Verhaeghen, stofnanda og forstjóra Bolt.

Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi fyrirtækisins, með upprunaábyrgðirnar.
Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi fyrirtækisins, með upprunaábyrgðirnar. Ljósmynd/Aðsend

Kerfi upprunaábyrgða haldi ekki vatni

Bent er á að á Íslandi sé öll orka framleidd með endurnýjanlegum hætti.

„Íslenskir orkuframleiðendur fá „upprunaábyrgðir“ sem þeir svo selja belgískum framleiðendum óhreinnar orku. Þeir aftur nota ábyrgðarbréfin til grænþvottar á sölusamningum sínum. Þannig telja bæði Íslendingar og Belgar að orkan sem þeir nota sé græn. En það er vitanlega ómögulegt, kílóvattsstundin verður bara notuð einu sinni. Hin kílóvattsstundin er óhrein,“ segir í tilkynningunni.

„Umskiptin yfir í græna orku er eitt mikilvægasta verkefni okkar tíma. Þau styðja baráttuna gegn loftslagsbreytingum og varðveislu jarðar. Þetta er sameinað átak sem kallar á samstarf bæði fólks og landa, í þágu okkar allra.“

Tekið er fram að Bolt hafi ekkert á móti Íslendingum.

„Dæmi íslenskra upprunaábyrgða má hins vegar nota til að gera vandamálið áþreifanlegt. Ísland er eyja og þaðan enginn 2.000 kílómetra langur rafstrengur til Belgíu. Þess vegna hóf Bolt herferð í Belgíu til að útskýra vandamálin tengd upprunaábyrgðum. Tvítalningin á sér stað víðar. Kerfi upprunaábyrgða heldur ekki vatni.“

Íslendingar þurfi að vera meðvitaðir

Fyrirtækið segist vilja að Ísland hætti að selja upprunaábyrgðir sínar, þar sem græni stimpillinn dragi upp ranga mynd á erlendri grund.

„Þess vegna tekur Bolt slaginn og sækist eftir fundi með forsætisráðherra Íslands. Íslendingar þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar stefnu sinnar. Fyrir 2011 þegar sala upprunaábyrgða hófst á Íslandi voru 100% orkunnar græn. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun um uppruna seldrar raforku hér á landi var græn orka komin niður í 9% árið 2019.“

Græn orka sé seld einstaklingum og smærri fyrirtækjum, en megnið af raforkusölu sé ekki græn og fari til orkufreks iðnaðar. Á vef sínum bendi Orkustofnun líka á að þrátt fyrir útreiknaðan uppruna raforku sé íslensk raforka nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Bolt segist vona að með frumkvæði sínu megi vekja umræðu um það hvernig upprunaábyrgðakerfið geti verið villandi og búið til tálsýn um notkun grænnar orku.

„Það ríður á fyrir Belga að velja staðbundna græna orku og fyrir Íslendinga að gera raunverulega græna samninga um orku sína. Að mati Bolt færi betur á því að Ísland notaði skírteini sín til nota heimafyrir og enn betra ef hægt væri að berja í bresti evrópska upprunaábyrgðarkerfisins til að koma í veg fyrir tvítalningu grænnar orku um alla Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert