Grunur um smit á Hrafnistu

Hrafnista í Laugarási.
Hrafnista í Laugarási. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Grunur er um að heimilismaður á Hrafnistu í Laugarási sé smitaður af kórónuveirunni og er gengið út frá því að um smit sé að ræða þar til annað kemur í ljós. Þetta segir María Fjóla Harðardóttir, fram­kvæmda­stjóri heil­brigðis­sviðs Hrafn­istu­heim­il­anna.

„Við eigum eftir að fá þetta staðfest. Við erum að vinna allar forvarnaaðgerðir en við hugsum um þetta sem staðfest smit þangað til annað kemur í ljós,“ segir María.

Grunur um smit kom upp um hádegisbilið í dag en þá var viðkomandi á Landspítala. Engu að síður er búið að loka deildinni sem heimilismaðurinn var á sem og deildinni fyrir neðan. Alls búa 60 manns á deildunum tveimur og eru því 60 komin í sóttkví á Hrafnistu vegna grunsins. Nú skoðar Hrafnista næstu skref í samvinnu við rakningarteymið.  

Enginn veikur innan Hrafnistu

„Það er enginn lasinn hjá okkur, hvorki íbúar né starfsmenn, þannig að við erum bara að herða reglurnar enn frekar á þessum tveimur deildum. Aðrir hlutar Hrafnistu í Laugarási eru bara með sömu þjónustutíma og voru, við erum bara búin að aðgreina Sólteig og Mánateig,“ segir María.

Síðan grunurinn kom upp hafa reglur og verklag verið hert og starfsmenn og aðstandendur upplýstir um stöðu mála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert