15 af 24 veitinga- og skemmtistöðum brutu reglur

Í gærdag og fram á kvöld fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu inn á 24 veitinga- og skemmtistaði til að fylgja eftir reglum um sóttvarnir, fjöldatakmörkun og tveggja metra reglunni.

Af þessum 24 veitinga- og skemmtistöðum framfylgdu 15 staðir ekki sóttvarnarreglum þannig að viðunandi væri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Sér í lagi var fjöldi gesta á stöðunum oft slíkur að alls ekki var unnt að tryggja tveggja metra bil milli manna og sums staðar var ekki þverfótað vegna fjöldi fólks, bæði inni á stöðunum og utan við þá.

„Eigendum og forsvarsmönnum var veitt tiltal eftir atvikum og þeim leiðbeint um hvað betur mætti fara. Lögreglan lítur þetta alvarlegum augum í ljósi aðstæðna og því er til skoðunar að grípa til hertra aðgerða, þar með talið beitingu sekta, til að sporna gegn brotum á sóttvarnareglum,“ segir í tilkynningunni.  

Tveimur veitingastöðum var jafnframt lokað þar sem leyfi voru ekki í lagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka