„Ég er með hugmynd!“

Auður Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði, segir frábært …
Auður Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði, segir frábært að skapandi fólk sem þar afpláni fái tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Ég er með hugmynd,“ sagði Auður Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði, við forstöðumann fangelsisins í október í fyrra. Hún segist vera heppin með samstarfsfólk því allir tóku hugmyndinni vel og Fangaverk varð að veruleika. 

Að sögn Auðar, sem starfaði sem fangavörður á Hólmsheiði áður, er hugmyndin á bak við verkefnið að búa til ný verkefni fyrir fanga en yfirleitt hefur vinna fanga verið fremur stopul og það er allt annað en auðvelt fyrir fólk sem er fært um að vinna.

Framleiðslan er fjölbreytt hjá Fangaverki.
Framleiðslan er fjölbreytt hjá Fangaverki. Fangaverk

„Við lögðum höfuðið í bleyti varðandi ný verkefni þar sem við erum yfirleitt bara með tímabundin verkefni fyrir fanga, svo sem innpökkun og annað, sem eru mjög góð verkefni en það vantaði eitthvað sem er alltaf í gangi. Því það er mikilvægt að það sé festa og skipulag á vinnu og verkefnum í fangelsum og hjá Fangaverki er unnið frá klukkan 9 til 15 með góðu hléi í hádeginu,“ segir Auður. Hjá Fangaverki gildir kynskipting, það er karlar eru sér og konur sér, við vinnuna.

Fólk getur valið um að vinna styttri vinnudag en Auður segir að best sé ef fólk vinni allan daginn. „Þetta gefur fólki tækifæri til að búa til festu og reglu. Fólk kann þessu yfirleitt vel og sumir eru ekkert ánægðir með alla þessa frídaga eins og á vorin því þeir vilja helst vinna alla daga ársins,“ segir Auður og vísar þar til frídaga á vorin eins og í kringum páska. 

Fangaverk

Þegar Auður var að leita að tækifærum fyrir fangelsið á Hólmsheiði vildi hún að það væri eitthvað sem kæmi innan frá og þegar hún sá myndir af kertastjökum í einhverju blaði ákvað hún að þau myndu prófa að hanna kertastjaka og selja. Hugmyndin féll í góðan jarðveg og var ákveðið að láta slag standa.

„Við erum að nota það sem til fellur í fangelsinu, svo sem skyrdósir, ísbox, mjólkurfernur og alls konar aðra hluti. Við notum þessa hluti til að búa til mót og steypum síðan með floti. Þetta er því bæði mjög umhverfisvænt auk þess sem mikil sköpun liggur hér að baki,“ segir Auður og bætir við að eitt það besta sem hún viti sé þegar hún kemur í vinnuna og einhver kemur til hennar og segir: „Veistu hvað mér datt í hug?“

„Þá eru þau inni á gangi að velta fyrir sér framhaldinu og möguleikum sem eru í boði. Því þeim þykir svo vænt um verkefnið. Þetta er frumkvöðla- og sköpunarstarf. Einhverjir steypa, aðrir pússa og enn aðrir mála. Fangarnir annast því ferlið frá upphafi til enda – frá hugmynd að vöru. Stundum koma séróskir frá viðskiptavinum okkar og þá leggjumst við á eitt við að verða við óskinni,“ segir Auður.

Umhverfisvæn framleiðsla á Hólmsheiði.
Umhverfisvæn framleiðsla á Hólmsheiði. Fangaverk

Vefverslun Fangaverks sem átti að vera tilbúin í júní fer í loftið í september því líkt og svo margt annað í íslensku þjóðfélagi tafðist það vegna kórónuveirufaraldursins. Fangaverk er með Facebook- og Instagram-síður þar sem hægt er að skoða vöruframboðið og panta.

Fangaverk er ekki rekið með hagnaði enda það ekki tilgangurinn með verkefninu. Tekjur fara í að kaupa hráefni fyrir frekari framleiðslu. „Þetta er í raun hringrás og ef einhver afgangur er þá fer hann í nýjungar í framleiðslu. Þegar eru í framleiðslu hjá okkur blómapottar af öllum stærðum og gerðum, kertastjakar, skálar, plattar og bakkar auk hannyrðavöru, svo sem húfur, töskur, mottur, óróar og svo mætti lengi telja,“ segir Auður.

Fangar sauma englaklæði úr gömlum brúðarkjólum.
Fangar sauma englaklæði úr gömlum brúðarkjólum. Fangaverk

Eitt af þeim verkefnum sem ekki er unnið í þeim tilgangi að selja eru englaklæði. Englaklæði er sjálfboðaverkefni og á Jessica Leigh Andrésdóttir hugmyndina að verkefninu sem snýst um að sauma líkklæði fyrir börn úr brúðarkjólum. Englaklæðin fara síðan á fæðingardeildir sjúkrahúsa þar sem þau eru til fyrir börn sem deyja á meðgöngu eða fæðast andvana. Englaklæði eru hluti af verkefnum styrktarfélagsins Gleym mér ei sem var stofnað haustið 2013 af þeim Önnu Lísu Björnsdóttur, Þórunni Pálsdóttur og Hrafnhildi Hafsteinsdóttur. Sameiginleg reynsla af missi á meðgöngu færði þær saman og með það að markmiði að vinna að því í sjálfboðastarfi að styðja betur við foreldra sem missa.

Englaklæði – umslög fyrir minnstu börnin.
Englaklæði – umslög fyrir minnstu börnin. Fangaverk

Fangaverk hóf að sauma englaklæði úr brúðarkjólum í kringum jólin en þá höfðu þau hjá Fangaverki sammælst um að þau vildu gefa af sér fyrir samfélagið – að láta gott af sér leiða. Þegar þau fréttu af englaklæðum ákváðu þau að slá til. 

„Ég ákvað að senda á Jessicu póst og spyrja hvort við mættum vera með. Hún varð mjög þakklát fyrir það og útvegaði okkur brúðarkjóla til að sauma úr. Okkur þykir afar vænt um þetta verkefni og höfum saumað tugi kjóla og umslög fyrir þau allra minnstu. Við hjá Fangaverki búum svo vel að hjá okkur starfar frábær saumakona sem hefur saumað flest englaklæðin fyrir okkur. Fyrstu englaklæðin voru saumuð í desember og við saumum þau samhliða öðrum verkefnum. Þetta er ofboðslega fallegt verkefni sem skiptir alla máli. Því það er fólk alls staðar í samfélaginu sem hefur þurft að ganga í gegnum barnsmissi,“ segir Auður.

Fangaverk

Fangelsið á Hólmsheiði var formlega opnað 10. júní 2016. Fangelsið er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga.

Að sögn Auðar taka bæði konur og karlar þátt í sköpuninni en karlar eru í miklum meirihluta enda mun fleiri karlar í afplánun á Íslandi en konur.

Yfirleitt eru um 40 fangar á Hólmsheiði og margir þeirra eru á leið í önnur fangelsi í framhaldinu, svo sem Litla-Hraun. Þeir sem eru í einangrun hafa ekki heimild til að taka þátt í verkefninu eðli málsins samkvæmt. Yfirleitt mæta 15-20 í vinnuna hjá Fangaverki á hverjum degi en aðrir taka þátt í annarri vinnu, svo sem bílaþvotti.

Fangaverk

Spurð út í áhuga fanga á að taka þátt segir Auður að hann sé mikill þrátt fyrir að margir efist um eigin hæfileika í upphafi. Annað komi á daginn þegar þeir prófa sig áfram. „Það er mesti sigurinn að sjá fólk vaxa og dafna í starfinu,“ segir Auður.

Auður segir að það sé alltaf hugmyndavinna í gangi að nýjum verkefnum fyrir fanga sem afplána í fangelsum á Íslandi. Fangaverk voru stór tímamót í þeirri vinnu. „Áður var það kannski þannig að það komu inn verkefni í tvær vikur og síðan ekkert í einhvern tíma. Að vera fastur inni í eirðarleysi er ekki það besta fyrir fólk. Flestir eru ánægðir með að hafa eitthvað fyrir stafni. Eðli málsins samkvæmt finna ekki allir sig í þessu og það er líka bara allt í lagi. Ekki hægt að ætlast til þess að allir passi í sama form. Samt sem áður virðist sem flestir finni sína hillu í þessu verkefni. Til að mynda voru nokkrir sem töluðu um að þeim þætti gaman að hnýta flugur og þá fórum við og keyptum í flugur og prófuðum það. Þannig að þær eru til sölu hjá okkur,“ segir Auður og bætir við hvað það sé gaman þegar hugmynd sem þessi verði að veruleika. „Það gerist ekki nema af því að fólk hefur áhuga og er hugmyndaríkt,“ segir hún.

Fangaverk

Fangelsinu á Hólmsheiði er skipt upp í smærri einingar og þar eru sex til átta fangar saman á gangi. Með þessu verkefni er það brotið upp því þarna hittist fólk og vinnur saman. Eðlilega hafði COVID-19 áhrif á starfsemi fangelsisins á Hólmsheiði enda máttu fangar ekki fá heimsókn á meðan faraldinum stóð og segir Auður að mikil áhersla hafi verið lögð á að virða sóttvarnareglur á Hólmsheiði.

Fangaverk

„Við náðum að halda áfram með vinnuna hjá Fangaverk allt COVID-tímabilið og það var mjög dýrmætt á sama tíma og allt annað var tekið frá fólki sem þar afplánar,“ segir Auður.

Eitt af einkennismerkjum Fangaverks er gagnkvæm virðing. „Hún er mikilvæg og eitthvað sem gildir í okkar starfi. Eins að vera reiðubúin að taka leiðsögn sem er ekki sjálfgefið. Það eru margir listrænir einstaklingar í fangelsum landsins og það er frábært að þetta skapandi fólk fái tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri,“ segir Auður Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Fangaverks.

Veiðiflugur sem hnýttar eru á Hólmsheiði.
Veiðiflugur sem hnýttar eru á Hólmsheiði. Fangaverk
Fangaverk
Fangaverk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka