„Þurfum að búa okkur undir annan raunveruleika“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir samfélagið þurfa að búa sig undir annan raunveruleika næstu mánuði og jafnvel ár í skugga heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Þórólfur var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi í morgun. 

Þórólfur segir það greinilegt að veiran sé enn í miklum vexti í heiminum og ekki á förum. Í sínum huga verði hún áfram áhrifavaldur í daglegu lífi næstu mánuði eða ár, ef til vill þar til bóluefni verður fullþróað en það er að hans mati ekki í augsýn. Hann segir að samfélagið verði að reyna að halda veirunni í lágmarki hér á landi til að koma í veg fyrir aukið álag á heilbrigðiskerfið. Það sé þó kominn tími til að horft verði til fleiri hagsmunaaðila. 

Þarf lítið til að smit breiðist út

Þórólfur segir að það hafi sýnt sig á síðustu vikum að það þurfi lítið til að smit breiðist út. Ef við sem samfélag viljum eiga við veiruna þannig að við höldum henni niðri og forðum fólki frá veikindum verður þetta líklegast sveiflukennt, ákveðinn tröppugangur í smitum, að sögn Þórólfs sem telur að við þurfum að búa okkur undir annan raunveruleika. 

Hann segist meðvitaður um að mörgum finnist þær takmarkanir sem nú eru í gildi óréttlátar, en ef við viljum halda veirunni í lágmarki hér innanlands þurfum við að halda áfram á sömu braut. Ef ekki þurfum við að sætta okkur við og horfa fram á aukið smit og afleiðingar þess. 

Þórólfur segir að það sé sama hvað sé gert í baráttunni við faraldurinn; veiran muni á endanum komast í samfélagið líkt og nú hefur gerst. Hann telur að þjóðir sem hafi gripið til strangra aðgerða séu eftir sem áður að horfa fram á aukið smit í samfélaginu. 

Allt tiltölulega einfalt

Allar aðgerðir sem gripið hefur verið til eru í sífelldu endurmati og það verður að koma í ljós hvað við tekur 13. ágúst þegar núgildandi tilmæli falla úr gildi, að sögn Þórólfs. Ýmis sjónarmið séu uppi og hans hlutverk sé að hlusta á þau og taka í framhaldinu skynsamlega ákvörðun þegar hann leggur fram tillögu til heilbrigðisráðherra. 

„Okkar hlutverk er að reyna að koma fólki í skilning um að við erum að fást við alvarlega hluti. Við erum með fjöldatakmarkanir, við erum með tveggja metra regluna og svo tilmæli um hvernig fólk getur hagað sér, þetta er allt tiltölulega einfalt,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert