Kerlingarfjöll friðlýst

Gýgjarfoss í Jökulfalli, á leiðinni inn í Kerlingarfjöll.
Gýgjarfoss í Jökulfalli, á leiðinni inn í Kerlingarfjöll. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Kerlingarfjöll og nærliggjandi svæði hafa verið friðlýst. Svandís Svavarsdóttir, settur umhverfisráðherra, undirritaði friðlýsinguna í dag. Kerlingarfjöll eru í hópi helstu náttúruperla landsins og vinsæl útivistarsvæði en friðlýsingin hefur verið á áætlun frá því árið 2016 er starfshópur var skipaður um málið.

Fjórir virkjunarkostir, sem eru í verndarflokki rammaáætlunar, falla undir friðlýsinguna, Hverabotn, Neðri-Hveradalir, Kisubotnar og Þverfell. Umhverfisráðherra hefur áður sagt að stefnt sé að því að ljúka friðlýsingu allra svæða í verndarflokki á þessu ári. Friðlýsing Kerlingarfjalla, sem nær til 344 ferkílómetra svæðis, er þó mun umfangsmeiri en svo að einungis sé verið að festa rammaáætlun í gildi.

Í samtali við mbl.is segir Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, að ákvörðunin marki tímamót fyrir stórkostlegt svæði. „Þetta er ítarlegar friðlýsing í formi landslagsverndar sem skapar miklu meiri ramma um hvert við ætlum að stefna,“ segir Hildur. Félagasamtök á borð við Vini Kerlingarfjalla og Fannborg hafi staðið sig vel í að hlúa að svæðinu, en nú muni ríkið í auknum mæli koma að uppbyggingu.

Guðmundir Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var formaður Landverndar þar til hann tók við ráðherraembætti árið 2017, en meðan á formennsku hans stóð skilaði Landsvernd inn jákvæðri umsögn um fyrirhugaða friðlýsingu. Af þeim sökum sagði hann sig frá málinu og fól það Svandísi Svavarsdóttur.

Kerlingafjöll eru fallegur klasi tinda á hálendinu.
Kerlingafjöll eru fallegur klasi tinda á hálendinu. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert