Snorri Másson
Forsætisráðherra fundaði með sóttvarnayfirvöldum um helgina til þess að ræða framtíðarútfærslu á samfélagslegum takmörkunum vegna annarrar bylgju kórónuveirufaraldursins.
Núgildandi ráðstafanir renna út 13. ágúst og samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins er líklegra að tilkynnt verði um framhaldið á morgun en í dag. Landlæknir sagði í gær að ekki væri útilokað að í breyttum ráðstöfunum yrðu fjöldatakmörk færð í minni fjölda en 100 og þá er einnig mögulegt að hert verði á skimun ferðamanna við landamærin.
Sóttvarnalæknir hefur sagt að nú sé það í höndum kjörinna fulltrúa að ákveða hvernig Ísland tekst á við veiruna til lengdar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tekur undir orð Þórólfs í samtali í Morgunblaðinu í dag. „Ríkisstjórnin getur ekki lengur skýlt sér á bak við almannavarnateymið og sóttvarnaforsendur einar og sér. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þau hafi verið að vinna að þessu í sumar og séu tilbúin núna í þessari viku sem er að byrja að sýna á þessi pólitísku spil hvað það er sem er í kortunum. Ríkisstjórnin er að auka óvissuna en ekki eyða henni,“ segir Þorgerður Katrín.