Fari svo að neyðarstig verði virkjað hjá almannavörnum ríkislögreglustjóra vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hefur það lítil áhrif á almenning.
Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, samskiptastjóra almannavarna, þýðir slíkt í raun sambærilegar aðgerðir og í mars á þessu ári. Þannig muni stjórnsýslan starfa með öðrum hætti.
„Þetta hefur í sjálfu sér engin rosaleg áhrif á almenning. Þetta merkir það að stjórnsýslan fer á ákveðið stig og þarf að tryggja ákveðna mönnun. Þetta hefur til dæmis áhrif á raforkufyrirtæki, símafyrirtæki og lögreglu. Það er unnið eftir öðru verklagi,“ segir Jóhann og bætir við að umræddar aðgerðir hafi lítil áhrif á almenning. Ráðstafanir sem snerta almenning séu hjá stjórnvöldum og sóttvarnalækni en ekki á vegum almannavarna. „Við vorum áður á neyðarstigi og það eitt og sér hafði ekki áhrif á almenning. Það eru sértækar aðgerðir sem geta haft áhrif á fólk. Það er sóttvarnalæknir sem mælir með því,“ segir Jóhann í Morgunblaðinu í dag.