„Þjóðfundarsamtal“ um styttingu vinnuviku

„Það sem reynir mest á í dagvinnunni er að þar …
„Það sem reynir mest á í dagvinnunni er að þar er meginmarkmiðið að það sé sameiginlegur ávinningur að styttingunni og að allir taki þátt í ákvarðanatökunni,“ segir formaður BSRB. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um sextíu til sjötíu manns eru um þessar mundir að störfum í tengslum við innleiðingu styttingar vinnuvikunnar hjá heildarsamtökum launafólks og hjá atvinnurekendum á opinberum vinnumarkaði. Samið var um styttinguna í síðustu kjaraviðræðum.

„Þetta er mjög stórt verkefni sem mun taka mikinn tíma hjá öllum sem standa að þessu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Áskorunin felst í fjölbreyttum vinnustöðum og greina þarf hópa vel til að finna mismunandi lausnir fyrir fólk í vaktavinnu. 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/​Hari

Fræðsluefni fyrir starfsfólk og stjórnendur

Fyrsta verkefni tveggja undirbúningshópa, annars vegar fyrir dagvinnu og hins vegar vaktavinnu, er að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk á vinnustöðum og fyrir stjórnendur. Í undirbúningshópunum eru fulltrúar allra samtaka launafólks (BSRB, BHM og ASÍ) ásamt fulltrúum atvinnurekenda, þ.e. ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarinnar.

Reiknað er með að ágústmánuður fari í undirbúning fræðsluefnis vegna vaktavinnunnar og að í september hefjist þjálfun fyrir stjórnendur. Í framhaldinu skoða stjórnendurnir hvernig þeir munu útfæra styttinguna á sínum vinnustöðum en innleiðingunni fyrir vaktavinnunni á að ljúka fyrir 1. maí á næsta ári.

Sonja Ýr í pontu á baráttufundi í Háskólabíói 30. janúar …
Sonja Ýr í pontu á baráttufundi í Háskólabíói 30. janúar síðastliðinn. Ljósmynd/Aðsend

Atkvæðagreiðsla um fyrirkomulagið 

Ferlið er öðruvísi þegar kemur að dagvinnunni, þar sem innleiðingunni á að vera lokið fyrir 1. janúar á næsta ári. Til stendur að koma fræðsluefni út til starfsmanna og stjórnenda þar á bæ á næstu vikum og eftir það fara samtöl á vinnustöðunum í gang. Að því loknu eiga starfsmenn og stjórnendur komast að sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag styttingarinnar með atkvæðagreiðslu þar sem atkvæðavægið er jafnt. Þessu ferli á að vera lokið fyrir 1. október næstkomandi. 

„Það sem reynir mest á í dagvinnunni er að þar er meginmarkmiðið að það sé sameiginlegur ávinningur að styttingunni og að allir taki þátt í ákvarðanatökunni. Við erum að horfa til þess að fólk taki eins konar þjóðfundarsamtal um hvernig megi nýta tímann betur við að stytta vinnuvikuna niður í allt að 36 stundir,“ útskýrir Sonja Ýr.

Starfsfólkið mótar því stefnuna með stjórnendum í dagvinnunni á meðan undirbúningshópar sjá um að móta hana fyrir vaktavinnuna.

Skólastofa sótthreinsuð vegna kórónuveirunnar í mars síðastliðnum.
Skólastofa sótthreinsuð vegna kórónuveirunnar í mars síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sonja Ýr segir marga mjög spennta fyrir innleiðingu styttingar vinnuvikunnar. „Við höfum heyrt bæði frá stjórnendum, stofnunum og starfsfólki að þau séu tilbúin til að hefja þetta samtal innanhúss um hvernig eigi að innleiða styttinguna,“ segir hún og bætir við að beðið sé eftir fræðsluefninu til að samtalið geti hafist á vinnustöðum dagvinnu.

Hægt að vinna hlutina með öðrum hætti 

Spurð út í áhrif kórónuveirunnar á innleiðinguna segir hún að ef faraldurinn hafi leitt eitthvað jákvætt í ljós sé það að svigrúm hafi aukist þegar kemur að því að vinna heiman frá sér „Þetta sýndi okkur að það er hægt að vinna hlutina með öðrum hætti og við þurftum að læra það á mjög skömmum tíma. Þetta getur hjálpað okkur við að hugsa hlutina upp á nýtt við innleiðinguna,“ greinir hún frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert