Enn er vatnsstaða há í ám og lækjum á sunnan- og vestanverðu landinu og lögreglan á Suðurlandi biður ferðamenn á hálendinu að fara varlega vegna áframhaldandi rigningar.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að margar ár séu ófærar og biður þess vegna ferðamenn að afla sér upplýsinga áður en haldið er í ferðir upp á hálendi.
Í Þórsmörk er leitað leiða til að hjálpa ferðalöngum áleiðis. Brynjólfur Flosason, rekstrarstjóri Volcano Huts í Húsadal, segir að grafa sé á leiðinni til að bæta færðina yfir Krossá.
„Það rignir áfram talsvert í dag og dregur síðan úr vætunni í dag og nótt,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu, í samtali við mbl.is. Hann segir að lítið muni rigna á morgun, en annað kvöld komi úrkomusvæði inn á vestanvert landið.
„Það verður ágætlega drjúg rigning á fimmtudaginn. Það má segja að við séum föst í sunnan- og suðvestanáttum, sem eru bæði blautar og hlýjar.“
Um veðrið á norðausturhluta landsins segir Teitur að það verði að mestu hlýtt og þurrt.