Þóra Arnórsdóttir, fjölmiðlakona, lýsir því yfir í sameiginlegri tilkynningu hennar og Helga Seljan, fjölmiðlamanns, að ekkert sé hæft í ásökunum sem Samherji birti í morgun á hendur Helga og RÚV. Samherji sé með framferði sínu að sverta mannorð öflugasta rannsóknarblamanns landsins og reyna að bægja athygli frá því að forstjóri Samherja sé með stöðu grunaðs í sakamáli tengdu starsemi Samherja í Namibíu.
Í kjölfar birtingar þáttar á YouTube-rás Samherja í morgun, sendu Þóra Arnórsdóttir og Helgi Seljan frá sér yfirlýsingu þar sem farið er rækilega yfir hvern lið í ásökunum á hendur Helga og þeim vísað harðlega á bug.
Samherji sakar Helga um að hafa falsað gögn í fréttaflutningi sínum árið 2012, um meint brot Samherja á þágildandi gjaldeyrislögum. Helgi vísar þessu algjörlega á bug og segir í tilkynningunni að gögnin sem notuð voru í fréttaflutningi Kastljóss og komu frá Verðlagsstofu skiptiverðs, hafi alls ekki verið fölsuð eða „við þau átt“ eins og kemur fram í ásökunum Samherja.
Jafnframt séu orð Helga sem Jón Óttar Ólafsson, fyrrum rannsóknarlögreglumaður og starfsmaður Samherja, tók upp á segulband án vitundar Helga á fundi þeirra fyrir sex árum, tekin algjörlega úr samhengi. Helgi segir að sú staðreynd að Samherji hafi búið yfir þessum upptökum í sex ár segi algjörlega til um hvert gildi þeirra sem sönnunargagn í málinu sé.
Helgi segir í lok tilkynningarinnar að engum dyljist hver tilgangur með ásökunum Samherja sé. Annars vegar sé gerð tilraun til að „hafa af blaðamönnum æruna með atvinnurógi af versta tagi,“ og hins vegar og það sem meira máli skipti „að dreifa athyglinni frá þeirri staðreynd að að Þorsteinn Már Baldvinsson og starfsmenn hans sæta nú rannsókn í stóru sakamáli...“