Einstök vinátta hunds og hrafns

Í vor tók Jóhann Helgi Hlöðversson hrafnsunga að sér sem hafði fundist á Selfossi. Dýralæknar á Suðurlandi höfðu samband við Jóhann þar sem hann hefur tekið að sér nokkra slíka í gegnum tíðina, meðal annars til að þjálfa í auglýsingar og kvikmyndaverkefni. Unginn hlaut nafnið Dimma og er að sögn Jóhanns alveg einstakur fugl.

Fyrir voru þrír hundar á heimilinu sem getur verið eldfimt ástand að sögn Jóhanns. „Yfirleitt eru hundar mjög á móti hröfnum,“ útskýrir hann. Það virðist þó ekki eiga við um tíkina Rjúpu, sem er tveggja ára stór dani, blíður og skemmtilegur hundur að sögn Jóhanns. Á milli þeirra hefur myndast vinasamband sem Jóhann segir vera einstaklega gaman að fylgjast með. Í myndskeiðinu sem fylgir sjást dýrin leika sér saman í göngutúr með Jóhanni.   

Tíkin Rjúpa og hrafninn Dimma hafa tengst vináttuböndum sem Jóhann …
Tíkin Rjúpa og hrafninn Dimma hafa tengst vináttuböndum sem Jóhann Helgi segir að sé fátítt á milli tegundanna. Ljósmynd/Aðsend

„Hrafnar eru stríðnir og þetta er hárfín lína á milli þess að stríða og vera bitinn tilbaka,“ segir Jóhann sem segist aldrei skilja dýrin eftir saman eftirlitslaus, það sé ekki óhætt. Dimma hefur fengið búr sem hún dvelur í á heimilinu en Jóhann segir að það hafi ekki reynst vel að reyna að sleppa tömdum hröfnum og því muni Dimma vera hjá honum alla sína tíð. 

Hrafnar eru þekktir fyrir útsjónarsemi og gáfur og Jóhann segir Dimmu taka leiðsögn afar vel. „Þeir eru fljótir að læra og hún er mun fljótari að læra en hundurinn og það er ótrúlega gaman að fylgjast með því hvað hún er klár.“ Hann segir þjálfunina einungis byggjast á hrósi, hvort sem um hunda eða hrafna er að ræða. „Þetta gengur ótrúlega vel og er mjög skemmtilegt bara.“     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka