„Við gefum okkur vikuna til að klára þetta mat og yfirferð á þessum valkostum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is um níu útfærslur Þórólfs um aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins.
Útlistanir á aðgerðunum má sjá í minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir afhenti Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í gær.
Katrín segir að þar eftirláti sóttvarnalæknir stjórnvöldum að leggja það sem hann kalli samfélagslegt og hagrænt mat á tillögurnar. Sú vinna, að fara yfir valkostina, stendur nú yfir.
Katrín segir að á þessu stigi málsins sé ekki hægt að segja að einhver tillagan „skari fram úr“ en Þórólfur sjálfur segir í minnisblaðinu að áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands sé að skima alla farþega á landamærum, krefja þá um sóttkví í 4-6 daga og skima þá aftur að þeim tíma liðnum.
„Staða málsins er sú að við erum að fara yfir þetta og uppfæra hagræna greiningu sem var kynnt í júníbyrjun í aðdraganda þess að við ákváðum að hefja skimun á landamærum. Við leggjum mat á þessa valkosti og ákváðum að gefa okkur vikuna í það nema sóttvarnayfirvöld hefðu kallað eftir aðgerðum fyrr, sem þau hafa ekki gert. Við erum líka að fylgjast með þróuninni hérna heima,“ segir forsætisráðherra.
Katrín kveðst engu geta lofað með tímasetningar varðandi hvenær stjórnvöld kynni eina af tillögum Þórólfs sem verði fyrir valinu. „Við gefum okkur vikuna í þetta og línur munu skýrast um eða eftir helgi.“
Aðspurð segist Katrín ekki finna fyrir pressu frá hinu ýmsu hagsmunahópum varðandi hvaða lendingu stjórnvöld eigi að taka í þessu mikilvæga máli:
„Það er ekki þannig. Við erum að reyna að leggja mat á þetta út frá heildarhagsmunum. Mér fannst mikilvægt að fá þessa valkosti alla á borðið, þannig að það sé hægt að fara yfir það með skipulögðum hætti. Sú vinna hefur staðið yfir frá því í gærmorgun.“