Níu útfærslur Þórólfs

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur fram níu útfærslur að aðgerðum á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins í minnisblaði sem hann afhenti Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í gær.

„Að mínu mati er nú svo komið að við stöndum frammi fyrir ýmsum möguleikum á sóttvarnaaðgerðum bæði á landamærum og innanlands sem miða að því að lágmarka áhættuna á því að hér brjótist út alvarlegur faraldur af völdum COVID-19,“ skrifar Þórólfur í minnisblaðinu.

Hann segir aðgerðirnar mismunandi íþyngjandi fyrir íslenskt samfélag og efnahag og því blasi við að hans mati að stjórnvöld verði að grípa til þeirra aðgerða sem að þeirra mati valdi sem minnstum samfélagslegum skaða að teknu tilliti til fjölda þátta er varða sóttvarnir, lýðheilsu almennt og samfélagsleg áhrif, skrifar Þórólfur sem teiknar upp níu mögulegar útfærslur á landamærunum.

Hann bendir á að aðgerðirnar miði að því að minnka áhættuna á því að kórónuveiran berist hingað til lands en engin aðgerð komi algerlega í veg fyrir að það geti gerst. 

„Áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands að mínu mati er að skima alla farþega á landamærum, krefja þá um sóttkví í 4-6 daga og skima þá aftur að þeim tíma liðnum,“ skrifar Þórólfur en aðferðinni er nánar lýst í lið 5 hér að neðan:

Hugmyndir sóttvarnalæknis um landamærin:

1. Aðgangur ferðamanna til landsins verði óheftur. Þórólfur mælir alls ekki með þessum kosti á þessari stundu, sérstaklega í ljósi þess að faraldurinn er í miklum vexti víða í heiminum.

2. Beitt verði ýtrustu hömlum á komur einstaklinga hingað til lands. Þórólfur segir ýmsar leiðir mögulegar til að stöðva komur einstaklinga hingað til lands og ekki á færi sóttvarnalæknis að nefna hverjar þær eru. Ólíklegt er hins vegar að það takist að loka landinu algjörlega fyrir öllum komum til langs tíma. Sóttvarnalæknir telur slíkar aðgerðir ekki munu koma að fullu í veg fyrir dreifingu veirunnar hingað og muni ekki koma í veg fyrir dreifingu hennar innanlands.

3. Öllum einstaklingum sem koma hingað til lands verði gert að fara í 14 daga sóttkví án skimunar. Þórólfur bendir á að slík ráðstöfun myndi líklega fækka verulega fjölda ferðamanna hingað til lands. Erfitt væri að hafa eftirlit með hvort fólki haldi sóttkví og þessar aðgerðir myndu minnka líkur á dreifingu veirunnar hingað til lands en ekki koma í veg fyrir slíkt.

4. Skimun allra á landamærum við komuna hingað til lands. Þórólfur telur að þessi ráðstöfnum myndi að líkindum ekki hafa mikil áhrif á ferðamannastrauminn en minnka líkur á að veiran komi hingað. Afkastageta skimunarinnar myndi takmarka þann fjölda sem hingað kæmi. Þessi aðgerð mun því minnka líkur á að smit berist hingað til lands en ekki koma í veg fyrir slíkt.

5. Skimun allra á landamærum, sóttkví í 4-6 daga og í framhaldi af því sýnataka 2. Sóttvarnalæknir segir að þetta fyrirkomulag sé viðhaft í dag fyrir þá sem ætli að dvelja hér á landi lengur en í tíu daga og eru að koma frá áhættusvæðum. Tveir einstaklingar hafa greinst í sýnatöku 2 sem ekki greindust í fyrstu sýnatöku og er þessi aðgerð því sennilega næmasta aðferðin við að koma í veg fyrir að veiran komist hingað til lands. Hún krefst hins vegar mikillar rannsóknargetu, skipulags og mannafla og er auk þess kostnaðarsöm. Erfitt gæti reynst að hafa eftirlit með hvort einstaklingar haldi sóttkví og mikinn mannafla þyrfti til þess og þá væntanlega víða um land. Líklega myndi þessi aðgerð einnig draga verulega úr ferðavilja fólks til Íslands. Þessi aðgerð er að líkindum mjög áhrifarík í því skyni að lágmarka áhættuna á því að veiran berist hingað til lands. Fjöldi ferðamanna hingað til lands myndi takmarkast við skimunargetu.

6. Skimun allra á landamærum sem koma frá áhættusvæðum en einstaklingum frá lágáhættusvæðum yrði sleppt. Þórólfur segir að þessi aðferð hafi verið notuð hér á landi og hafi komið í veg fyrir að smit hafi borist til landsins. Hins vegar hafa komið hér upp hópsmit af völdum tveggja undirtegunda veirunnar þrátt fyrir skimunina og ekki ljóst hvernig veiran komst inn í landið. Þessi aðferð minnkar því líkur á að veiran komist hingað inn en kemur ekki fyllilega í veg fyrir að það geti gerst. Þessi aðferð er vel framkvæmanleg í dag m.t.t. afkastgetu skimunarinnar og minnkar líkur á að veiran komist hingað til lands en kemur ekki í veg fyrir slíkt. Hins vegar takmarkast fjöldi ferðamanna við afkastagetu skimunarinnar.

7. Skimun allra einstaklinga á landamærum, sóttkví í 5-7 daga fyrir einstaklinga frá áhættusvæðum og síðan sýnataka 2 hjá einstaklingum í sóttkví. Þórólfur segir þetta afleidda aðferð frá því sem lýst er í fimmta lið. Líkur á að smit komist inn í landið eru hér meiri en lýst er í lið 5 en þessi kostur er hins vegar auðveldari og ódýrari í framkvæmd. Einnig myndi þessi aðferð að líkindum ekki hafa eins mikil áhrif á ferðamannastrauminn eins og lýst er í lið 5. Þessi kostur er því álitlegur en fjöldi ferðamanna takmarkast við skimunargetu. 

8. Sóttkví allra í 7 daga sem lýkur með sýnatöku. Sóttvarnalæknir segir að þessi aðferð myndi sennilega greina nánast alla sem í raun eru smitaðir en þeir gætu hafa smitað aðra á þeim tíma sem þeir eru í sóttkvínni. Auk þessu eru líkur á að draga myndi verulega úr fjölda ferðamanna. Erfitt gæti reynst að hafa eftirlit með hvort einstaklingar haldi sóttkví og mikinn mannafla þyrfti til þess og þá væntanlega víða um land. Þessi kostur er ekki eins álitlegur og ýmsir aðrir kostir og fjöldi ferðamanna takmarkast við skimunargetu.

9. Skimun einstaklinga frá lágáhættusvæðum en 14 daga sóttkví hjá einstaklingum frá áhættusvæðum. Þessi aðferð er sögð vel framkvæmanleg en muni væntanlega fækka verulega farþegum frá hááhættusvæðum. Þessi aðgerð dregur úr líkum á að veiran berist hingað til lands en er ekki eins áhrifarík og sumar aðrar aðgerðir sem nefndar hafa verið. Farþegum frá áhættusvæðum myndi líklega fækka en erfitt yrði að flokka farþega eftir svæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert