Oddur Þórðarson
Samherji fer þess á leit við RÚV að á grundvelli upplýsingalaga, verði lögmanni Samherja afhent skýrsla sem Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, notaði sem aðalgagn í umfjöllun sinni um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum árið 2012. Þetta segir í bréfi sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Samherja, sendi Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra og mbl.is hefur undir höndum.
Fram kemur í bréfinu að í viðbrögðum útvarpsstjóra um birtingu myndbands á YouTube-rás Samherja í gær, þar sem reifaðar eru ásakanir á hendur Helga Seljan um að hann hafi falsað umrædda skýrslu um meint brot Samherja. Arnar Þór, lögmaður Samherja, segir jafnframt að í yfirlýsingu útvarpsstjóra sem birtist í gær hafi komið fram að því sé „hafnað sem röngu“ að skýrslan sem Helgi Seljan studdist við sé ekki til og hafi verið fölsuð.
Enn fremur segir í bréfi Arnars að horfa verði til þess að RÚV hafi skýrsluna undir höndum og er þess óskað að hún verði afhent lögmanni Samherja innan fimm daga. Verði ekki orðið við beiðninni skal málinu skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Arnar Þór, lögmaður Samherja, segir í lok bréfsins til útvarpsstjóra að fyrirtækið fallist á að persónuupplýsingar heimildarmanna verði afmáðar, séu slíkar upplýsingar í skýrslunni og sé skýrslan yfir höfuð til.