Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, segist ekki skilja ákall Samherja um birtingu gagna þar sem fram kom að Samherji hafði selt karfa á undirverði til dótturfélags síns erlendis. Gögnin hafi verið birt áður. Samherji ásakar Helga um að hafa falsað umrædd gögn í þætti sem birtist á YouTube-rás fyrirtækisins í gær og segja jafnframt í tilkynningu að fyrirtækið skori á RÚV að birta umrædd gögn.
Helgi segir það ítrekað hafa komið fram að skýrsla eða gögn Verðlagsstofu um viðskiptahætti Samherja liggi fyrir, þrátt fyrir póst deildarstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs til Samherja þar sem hún staðfestir að gögnin hafi aldrei verið unnin af stofnuninni. Í yfirlýsingu Helga vegna málsins segir: „Það, hvers vegna núverandi starfsmaður Verðlagsstofu hafnar því núna, 8 árum eftir birtingu þess í sjónvarpi, að það hafi verið gert, er með nokkrum ólíkindum, þó ekki sé fastar að orði kveðið.“
Helgi sagði svo í samtali við mbl.is að „væntanlega hefði Verðlagsstofa gert athugasemd við það á sínum tíma ef upp hefði komið grunur að fréttamaður RÚV væri að reyna að falsa gögn sem koma ættu frá stofnuninni.“
Fram kom í viðtali mbl.is við Guðmund Ragnarsson í dag að gögnin sem um ræðir væru sannarlega til. Það staðfesti Guðmundur og segist hann sjálfur hafa notað gögnin við greinskrif fyrir tímarit Félags vélstjóra og málmtæknimanna, en hann var formaður félagsins á þeim tíma.
Einnig sat Guðmundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna en nefndin tekur til greina tölur frá Verðlagsstofu skiptaverðs um fiskverð og rannsakar hvort verð séu „eðlileg eða óeðlileg." Hann segist ekki vita hver lak gögnum til Helga Seljan á sínum tíma en bætir við að honum finnist stórfurðulegt að trúnaður ríki um störf Verðlagsstofu og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.
Í fyrrnefndum þætti Samherja, sem birtist í gær, er Helgi Seljan borinn þeim sökum að hafa falsað gögn frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem sanna áttu meint brot Samherja á gjaldeyrislögum árið 2011. Í tilkynningu Samherja frá því í gær skorar fyrirtækið á RÚV að birta gögnin. Helgi Seljan segir í samtali við mbl.is að með því væri um „endurbirtingu að ræða.“
Helgi segir að sýnt hafi verið fram á, í kastljósþætti þann 27. mars 2012, að gögnin séu til. Jafnframt hafi Samherji sjálfur birt gögnin þar sem þeir birtu myndbrot úr kastljósþættinum, þar sem gögnunum bregður fyrir, í eigin þætti. Gögnin hafi ekki enn verið birt í heild sinni til þess að vernda heimildarmenn. Persónuupplýsingar heimildarmanna Kastljóss komi fram í gögnunum og ekki sé unnt að láta slíkar upplýsingar af hendi.
Helgi segir augljóst að ákall Samherja um birtingu gagnanna sé vegna þess að enn hafi ekki komið fram hverjir heimildarmenn Kastljóss hafi verið. „Það lítur allt út fyrir að Samherji sé hér einfaldlega að reyna að komast yfir upplýsingar um þessa heimildarmenn okkar. Annað verður ekki ráðið af þessu öllu saman.“
Helgi bætir síðan við að tilgangur þessa útspils Samherja hafi aldrei verið annar en að vekja athygli á málinu núna og beina þannig athyglinni frá þeirri staðreynd að Samherji sætir rannsókn vegna viðskipta fyrirtækisins í Namibíu og víðar, ásökunum sem forstjóri Samherja hefur enn ekki svarað, þrátt fyrir ítrekuð boð og beiðnir um svör. Sem standa enn.
Aðspurður um hvort RÚV ætli sér að birta gögnin aftur segir Helgi í samtali við mbl.is að það þurfi að ræða innan fréttadeildar RÚV og ræða það við heimildarmenn Kastljóss í málinu.