„Það er mér sönn ánægja að vera hér kominn til þess að opna fyrsta Gagnaþonið sem haldið hefur verið hér á landi. Vonin er sú að með þessu verkefni megi auka hagnýtingu og sýnileika opinna gagna í samræmi við Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þegar hann setti nýsköpunarkeppnina Gagnaþon fyrir umhverfið í dag.
Tilgangur keppninnar er að ýta undir sýnileika opinberra gagna og vinna að umhverfisvænum lausnum í gagnavinnslu. Keppnin er haldin af nýsköpunarmiðstöð í samstarfi við fjármálaráðuneytið.
Um 100 keppendur á öllum aldri hafa skráð sig til leiks og verður keppt í þremur flokkum. Sigurvegarar í flokknum „besta gagnaverkefnið“ geta unnið 750.000kr. peningaverðlaun.
„Megintilgangurinn er nú samt sem áður að stuðla að því að til verði snjallar lausnir á sviði umhverfismála. Og á því sviði er af nógu að taka. Það dylst engum að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru stóra áskorun samtímans. Jafnvel þótt kórónuveiran krefjist athygli okkar og mikilla fórna núna um heimsbyggðina alla, þá megum við nefnilega ekki gleyma því að loftslagsváin fer ekkert á meðan. Þannig að, á sviði umhverfismála eru næg verkefni fram undan,“ sagði ráðherra.
Hann benti á að stjórnvöld hefðu sett sér það markmið að draga úr losun um að minnsta kosti 40% fram til ársins 2030 en í nýrri áætlun voru settar fram aðgerðir sem miða að þessum samdrætti og gott betur.
„Þar að auki er markið sett á kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Það er að segja að kolefnislosun á Íslandi verði engin, umfram það magn sem við bindum hér á landi,“ sagði Guðmundur Ingi. Til þess þyrfti að draga úr losun og auka kolefnisbindingu.
„Við þurfum að breyta ferðavenjum okkar, draga úr úrgangsmyndun, koma í veg fyrir sóun á öllum sviðum, neyta minna, borða öðruvísi, stunda öðruvísi landbúnað, öðruvísi veiðar og svo framvegis. Við þurfum að byggja okkur öðruvísi hús, rafvæða hafnirnar okkar og svo framvegis og svo framvegis. Og þarna komum við að ykkur. Ég hef trú á því að á næstu dögum muni fæðast hugmyndir sem muni eiga þátt í því að færa okkur nær markmiðum okkar? Að færa okkur nær þeim heimi sem við viljum byggja og sem við viljum bjóða börnunum okkar upp á,“ sagði Guðmundur Ingi.