Vagnstjóri grunaður um ölvun við akstur

Vagnstjórinn er grunaður um ölvun við akstur. Mynd úr safni.
Vagnstjórinn er grunaður um ölvun við akstur. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er vítavert gáleysi og stofnar fólki og nærumhverfinu öllu í hættu. Ef að þetta er rétt þá á hann ekki afturkvæmt. Þetta er brottrekstrarsök, það er ekkert flóknara en það,” segir Guðmundur Heiðar Helguson, upplýsingafulltrúi Strætó bs., í samtali við mbl.is.

Lögregla stöðvaði strætisvagn á tíunda tímanum vegna gruns um að vagnstjórinn væri ölvaður undir stýri. Guðmundur segir að vagnstjórinn hafi verið látinn blása í áfengismæli og að honum hafi í kjölfarið verið ekið á brott í lögreglubifreið. Hann veit ekki meira um málið og segir það í rannsókn. RÚV greindi fyrst frá.

Vagninn, á leið 17, var stöðvaður á Laugavegi en engir farþegar voru í honum þegar lögregla stöðvaði för hans. Samkvæmt Guðmundi hafði vagnstjórinn ekið vagninum frá því klukkan 6:40 í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert