Heildarskuldir ríkissjóðs jukust um vel á annan milljarð króna á dag frá lokum janúar og fram í lok júlí. Heildarskuld ríkissjóðs var tæplega 882 milljarðar króna í lok janúar en var tæplega 1.136 milljarðar í lok júlí. Það er aukning um 254 milljarða króna á sex mánuðum.
Þetta má lesa úr tölum Lánamála Seðlabanka Íslands. Skuldaaukningin er fyrst og fremst tilkomin vegna gífurlegra efnahagsáhrifa kórónuveirunnar. Til að mæta því bakslagi boðaði ríkisstjórnin margvíslegar aðgerðir sem hafa kallað á útgjöld og lántökur. Hins vegar hefur hrein skuld ríkissjóðs enn ekki aukist jafn hratt og heildarskuldir, eða um 126 milljarða.
Sá kostnaður jafnast einn og sér á við tvo nýja meðferðarkjarna við Landspítalann á Hringbraut, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að lágir vextir bæði á Íslandi og á alþjóðlegum mörkuðum geri það að verkum að auknar skuldir feli í sér minni þunga fyrir ríkissjóð en áður hefur þekkst. Þá hafi ríkissjóður greiðan aðgang að erlendum lánamörkuðum ólíkt því sem gerðist t.d. eftir kreppuna 2008 þegar erlendir lánamarkaðir lokuðust Íslandi.