Kennsla við Háskóla Íslands haustið 2020 verður skipulögð sem rafræn kennsla – og geti með stuttum fyrirvara orðið að fullu rafræn breytist forsendur – en á sama tíma verður leitað leiða við að nýta stofur skólans til staðkennslu eftir því sem kostur er miðað við aðstæður. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi til starfsfólks og nemenda í gær.
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú fer kennsla senn að hefjast ásamt öðru starfi Háskólans á öllum fræðasviðum. Það er vandasamt verk að skipuleggja skólastarf á slíkum óvissutímum þar sem forsendur geta breyst með skömmum fyrirvara.
Markmið okkar er að skipuleggja skólastarfið þannig að það haldist óslitið þrátt fyrir skyndilegar breytingar en einnig að það sé eins eðlilegt og kostur er. Þetta þýðir að kennsla við Háskóla Íslands haustið 2020 verður skipulögð sem rafræn kennsla – og geti með stuttum fyrirvara orðið að fullu rafræn breytist forsendur – en á sama tíma verður leitað leiða við að nýta stofur skólans til staðkennslu eftir því sem kostur er miðað við aðstæður.
Háskólinn er opinn stúdentum og starfsfólki en lýtur gildandi sóttvarnareglum. Yfirvöld hafa rýmkað heimildir skóla til að nýta stofur til staðkennslu, að þar sé miðað við 1 m milli einstaklinga en ekki 2 m eins og almennt gildir. Áfram gildir að ef óvíst er hvort hægt sé að virða fjarlægðartakmarkanir ber að nota andlitsgrímur og miðað er við hámark 100 fullorðinna í sama rými.
Við nýtingu á stofurými Háskólans til staðkennslu verður eftirfarandi haft að leiðarljósi: