„Ekki auðvelt í framkvæmd“

„Þetta verður ekki auðvelt í framkvæmd. Þetta krefst mikils mannafla í skimun og í veirurannsóknum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. „En ef okkur tekst að framkvæma þetta vel og gera þetta eins og við viljum, þá á það að lágmarka áhættuna á að veiran komist hér inn.“

Frá og með miðvikudeginum 19. ágúst munu öll þau sem koma til Íslands fara í skimun á landamærum. Síðan fer fólk í sóttkví og aðra sýnatöku að fjórum til sex dögum liðnum. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Aðgerðirnar byggja á hinni svokölluðu fimmtu tillögu sóttvarnalæknis af níu, sem tilteknar voru í minnisblaði fyrr í vikunni. Fram hefur komið að fimmta tillagan var að mati sóttvarnalæknis áhrifaríkasta leiðin.

„Það eru margar áskoranir samt sem áður,“ segir Þórólfur. „Veiran getur komist inn. Það er engin aðferð til að við getum algjörlega komið í veg fyrir það.“

Aðgerðirnar voru tilkynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á föstudag.
Aðgerðirnar voru tilkynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein tegund veiru geti haft mikil áhrif

Þórólfur segir að allar aðgerðir sem hann mælir með, og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til, séu í stöðugri endurskoðun og byggi á þeirri reynslu sem safnast hefur við skimun á landamærum.

„Við höfum komið í veg fyrir tæplega 50 smit, en samt höfum við fengið tvær tegundir af veirunni hingað inn. Það tókst að stoppa aðra mjög snemma, en við erum enn þá að glíma við seinni tegundina, og það sýnir hvað ein tegund veiru getur gert mikið og dreifst víða,“ segir Þórólfur.

120 manns hafa nú greinst með þá tegund veirunnar; fjórir hafa verið lagðir inn á sjúkrahús og einn á gjörgæslu.

„Þetta getur því verið mjög alvarlegt. Þannig ef við fengum 10 eða 20 mismunandi veirur aukalega inn í landið, þá getur maður ímyndað sér hvað afleiðingarnar gætu verið alvarlegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert