Erfiðir tímar fram undan

Ísland fer á rauða lista yfirvalda í Noregi á miðnætti …
Ísland fer á rauða lista yfirvalda í Noregi á miðnætti í kvöld vegna nýgengis smita. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó að ágætlega hafi ræst úr sumrinu fyrir íslenska ferðaþjónustu er horft til erfiðra tíma í haust og í vetur. „Það er auðvitað talsverð óvissa með þetta, hvernig þróunin verður, en almennt liggur það fyrir að bókunarfyrirvari er mjög skammur við þessar kringumstæður, svo það er ekki vitað hvernig haustið mun koma út. Það eina sem við vitum er að það er tiltölulega lítið bókað, en það þarf ekki að þýða neitt sérstakt vegna þessa skamma bókunarfyrirvara,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Ísland fer á rauða lista yfirvalda í Noregi á miðnætti í kvöld vegna nýgengi smita, en Skarphéðinn telur það ekki endilega munu breyta stóru myndinni þó að Íslandi fari inn og út af listum annarra landa.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara þróunin á þessum sjúkdómi sem hefur áhrif. Auðvitað er fólk í Noregi ekki að bóka Íslandsferðir núna en ég held ekki að fólk í útlöndum fylgist með því almennt á hvaða listum við erum hverju sinni. Það hefur þó áhrif á ferðahegðun og þennan bókunarfyrirvara, og ferðaáhuga Íslendinga til útlanda. Það er hinn hlutinn af þessu. Það er ekki bjart útlit hjá þessum sem eru að selja ferðir til útlanda, og það hefur náttúrulega áhrif á Icelandair líka,“ segir Skarphéðinn.

Óvissan í kringum Icelandair sé ferðaþjónustunni mjög þungbær. Þótt vissulega hafi orðið áfangasigur þegar félagið tilkynnti að samið hefði verið við lánardrottna. „Auðvitað er það mikilvægur áfangi, en þetta er ekki búið. Hlutafjárútboðið er enn þá eftir svo það er enn óvissa.“

Tvöföld skimun og sóttkví gerði út af við ferðaþjónustu

Til stendur að ríkisstjórnin kynni framtíðarfyrirkomulag við landamærin nú síðdegis. Skarphéðinn segist ekki hafa kynnt sér allar tillögur sóttvarnalæknis. „En það er alveg ljóst að ef það yrði eitthvert þannig fyrirkomulag að vera með tvær skimanir og sóttkví á milli, ef það myndi gilda fyrir alla, þá myndi öll ferðaþjónusta leggjast af. Það myndi enginn ferðamaður leggja í það. Ég veit ekki hvaða leið verður farin en það er mér til efs að það yrði farin einhver svona leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert