Hálf milljón á mann í bætur í Löke-máli

Lögreglan. Hvor fékk 550.000 kr.
Lögreglan. Hvor fékk 550.000 kr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Scheving Thorsteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og félagi hans fengu greiddar 550.000 krónur hvor í miskabætur frá ríkinu fyrir ólögmæta handtöku, húsleit og aðrar þvingunaraðgerðir sem þeir máttu þola árið 2015 þegar þeir voru handteknir í svonefndu LÖKE-máli.

Embætti ríkislögmanns synjaði í júní beiðni Morgunblaðsins um upplýsingar um fjárhæð miskabótanna, en ákvörðunin var síðan endurskoðuð og hefur Morgunblaðið nú fengið upplýsingar um að þann 8. júní var af hálfu embættisins gengið frá samkomulagi við Gunnar og félaga hans um greiðslu miskabóta að fjárhæð 550.000 til hvors um sig vegna þeirra þvingunarráðstafana sem þeir máttu þola í tengslum við rannsókn LÖKE-málsins. Í samkomulaginu felst ekki afstaða embættis ríkislögmanns til lögmætis aðgerðanna.

Um er að ræða bætur vegna handtöku og vistunar í fangageymslu, húsleitar og haldlagningar tölva. Grundvöllur bótaréttar Gunnars og félaga hans var hlutlæg bótaregla 246. greinar laga um meðferð sakamála, en í ákvæðinu er gert ráð fyrir að maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta fyrir tilteknar þvingunaraðgerðir ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður.

Gunnar og tveir aðrir, starfsmaður símafyrirtækis annars vegar og lögmaður hins vegar, voru handteknir árið 2015 vegna gruns um að Gunnar hefði flett upp nöfnum kvenna í innra kerfi lögreglunnar á árunum 2007 til 2013 og deilt upplýsingum með hinum. Síðar var alfarið fallið frá þeirri ákæru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert