Hlaup er að öllum líkindum að hefjast í Grímsvötnum, að sögn Benedikts Ófeigssonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Frá því á hádegi í gær hefur íshella í Grímsvötnum bæði risið og sigið, samkvæmt GPS-stöð sem þar er staðsett. Fylgst er náið með þróun mála þar.
Ekki verður hægt að staðfesta fyrr en á morgun hvort hlaup er að hefjast. „Risið er hætt í bili og er að breytast í sig. Það er svolítil óvissa enn þá um hvort það sé í raun og veru að byrja. Til að byrja með bíðum við átekta og sjáum hvort þetta er raunverulegt,“ segir Benedikt.
Aðspurður segir hann að hlaup úr Grímsvötnum hafi ekki í för með sér sérstakar afleiðingar en það sem menn horfi fyrst og fremst í núna sé að Grímsvötn virðist tilbúin í eldgos. „Það hefur gerst að hlaup hafi komið af stað eldgosi og við erum að fylgjast með því.“
Veðurstofa Íslands fundaði í morgun ásamt almannavörnum um stöðu mála.
Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011 og segir Benedikt að það hafi verið óvenjulegt að mörgu leyti, því það var stærra en þau síðustu sem komu á undan. Ef gos verður er ekki búist við stóru gosi í þetta sinn, þó svo að ekkert sé hægt að fullyrða um það.
Uppfært kl. 11.50:
Þegar hlaup hefst úr Grímsvötnum tekur það alla jafna þrjá til fimm daga til að brjótast fram undan jökli, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Vísindaráð almannavarna fundar aftur á morgun vegna stöðunnar.
Tilkynningin í heild sinni:
„Ekki er hægt að staðfesta með vissu að hlaup sé hafið úr Grímsvötnum.Vísindaráð Almannavarna fundaði nú í morgun og fór yfir gögn úr mælitækjum sem vakta Grímsvötn. GPS mælar sem staðsettir eru við Grímsvötn sýna örlítið sig sem getur þýtt að vatn sé farið að hlaupa fram. Sigið sem mælist er þó mjög lítið og gæti verið óvissa í mælitækjum. Engin merki eru um hlaupvatn í Gígjukvísl og enn á eftir að staðfesta hvort rafleiðni hafi aukist sem að jafnaði er skýrt merki um að hlaup sé hafið. Eins sjást engin merki á jarðskjálftamælum um að hlaupvatn sé að brjótast fram. Því er of snemmt að segja til um hvort að hlaup sé hafið. Það mun skýrast á næstu dögum með frekari gögnum t.d. með vísbendingum um hraðara sig, síðan aukið vatnsrennsli og rafleiðni. Þegar hlaup hefst úr Grímsvötnum tekur það hlaupvatnið alla jafna 3 til 5 daga að brjótast fram undan jökli.
Vísindaráð Almannavarna fundaði um stöðuna í Grímsvötnum fyrr í sumar og setti fram sviðsmyndir sem eru ennþá í gildi. Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922.
Vísindaráð Almannavarna hefur verið boðað aftur til fundar á morgun.“