Mikið líf á fasteignamarkaði

Horft til byggðanna í Árbæjarhverfi og Grafarholti úr Hólunum í …
Horft til byggðanna í Árbæjarhverfi og Grafarholti úr Hólunum í Breiðholti. mbl.is/Sigurður Bogi

Skammtímavísar hagdeildar Húsnæðis­ og mannvirkjastofnunar benda til að enn sé mikið líf á fasteignamarkaði ef marka má tölur um fjölda íbúða sem teknar eru úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna.

Mikil umsvif á fasteignamarkaði gefa til kynna að skarpar vaxtalækkanir á íbúðalánum undanfarið vegi upp á móti auknu atvinnuleysi og efnahagssamdrætti að því er segir í mánaðarskýrslu HMS.

Vísitala paraðra viðskipta sýnir að fasteignaverð hefur undanfarið risið upp í öllum landshlutum. Tólf mánaða hækkun fasteignaverðs í júní var mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en frá sama tíma í fyrra hækkaði vísitalan á svæðinu um 7,9% að nafnvirði. Minni hækkanir voru á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Meðal nýrra íbúða hefur íbúðum sem seldar eru á yfirverði fækkað hlutfallslega og íbúðum á undirverði fjölgað.

„Hlutfall fyrstu kaupenda á fyrri helmingi þessa árs hefur aldrei verið hærra svo langt aftur sem gögn ná. Niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar HMS gefa vísbendingu um mikinn áhuga svarenda á fasteignakaupum á næstu mánuðum. Sér í lagi hefur áhuginn aukist meðal fólks sem býr í foreldrahúsum en 26% þeirra segjast vera í fasteignahugleiðingum,“ samkvæmt tilkynningu frá hagdeild HMS.

Nokkuð hefur dregið úr framboði á íbúðum til sölu en nú eru um 1700 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu en voru ríflega 2000 í maí síðastliðnum. Einnig hefur dregið úr framboði á landsbyggðinni.

„Nokkur breyting hefur verið á meðalsölutíma íbúða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Sölutími nýrra íbúða á landsbyggðinni dróst talsvert saman á milli ára, en sölutími annarra íbúða lengdist. Á höfuðborgarsvæðinu lengdist meðalsölutími nýrra íbúða lítillega en hins vegar styttist meðalsölutími annarra íbúða á því svæði.

Hlutfall íbúa sem búsettir eru í minni byggðarkjörnum hefur farið lækkandi ár frá ári eftir aldamót. Í upphafi þessarar aldra bjuggu um 21% landsmanna í byggðarkjörnum með færri en 2.000 íbúa en nú um síðustu áramót stóð hlutfallið í rúmum 15%,“ segir í tilkynningu.

 Leiguverð heldur áfram að lækka

Samkvæmt vísitölu HMS lækkar leiguverð á milli mánaða annan mánuðinn í röð á höfuðborgarsvæðinu. Tólf mánaða hækkunartaktur leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur farið hratt lækkandi frá fyrstu þremur mánuðum ársins, þegar hann nam á bilinu 4,3-4,8%, niður í 2,5% í maí og nú 1,1% í júní. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um leiguverð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á öðrum svæðum á landsbyggðinni.

Mikil aukning var á þinglýsingum leigusamninga fyrir íbúðarhúsnæði í júní samanborið við sama mánuð í fyrra. Nemur nú fjölgunin á milli ára á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama ársfjórðung í fyrra um 16% á höfuðborgarsvæðinu, 15% í nágrannasveitarfélögum og 17% á öðrum svæðum á landsbyggðinni.

Í viðhorfskönnun HMS sem Zenter rannsóknir framkvæmdu í janúar síðastliðnum, eða stuttu áður en farsóttin náði fótfestu hér á landi, töldu um 92% leigjenda öruggt eða líklegt að þeir yrðu áfram á leigumarkaði eftir 6 mánuði en 6% ólíklegt eða öruggt ekki. Sömu mælingar voru framkvæmdar í apríl og júlí og hafði hlutfall leigjenda sem töldu það líklegt lækkað um 5-6 prósentustig og hlutfall leigjenda sem töldu það ólíklegt hafði tvöfaldast í 12%.

31 milljarður í ný óverðtryggð lán 

Nýjustu tölur yfir ný íbúðalán heimilanna sýna að júní síðastliðinn var umsvifamesti einstaki mánuðurinn, að minnsta kosti frá árinu 2013, í hreinum nýjum íbúðalánum hjá bönkunum. Alls voru í þeim mánuði lánuð út ný óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum að upphæð ríflega 31 milljarði króna, að frádregnum uppgreiðslum, innan bankanna.

Hrein ný óverðtryggð útlán bankanna á föstum vöxtum voru hins vegar neikvæð um þrjá milljarða, en allt frá október í fyrra hafa slík ný útlán verið mánaðarlega í minna mæli en uppgreiðslur heimilanna í þeim lánaflokki. Á sama tíma voru uppgreiðslur verðtryggðra lána einnig um einum milljarði króna umfram ný útlán heimilanna hjá bönkunum.

Áframhaldandi samdráttur varð í veitingu nýrra útlána innan lífeyrissjóðanna í júnímánuði, líkt og í maí og apríl. Ný íbúðalán þeirra voru í fyrsta sinn að lægri fjárhæð en uppgreiðslur eldri lána heimilanna hjá sjóðunum (þ.e.a.s. ef horft er eins langt aftur og tölur Seðlabankans ná, eða til ársins 2008) og var júní síðastliðinn sá umsvifaminnsti innan lífeyrissjóðanna frá upphafi mælinga.

Þessa miklu útlánaaukningu upp á síðkastið má rekja til mikilla vaxtalækkana á undanförnum mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert