Útlit er fyrir að innanlandssmit kórónuveiru haldi áfram að greinast nær daglega út þennan mánuð og inn í fyrstu viku septembermánaðar, ef marka má nýja spá vísindamanna við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalann sem gefin var út í dag. Spáin nær til næstu þriggja vikna, eða til 4. september, en segir ekki til um þróunina þar eftir.
Spálíkani, sem rannsóknarteymið hefur þróað, er þar beitt á fyrirliggjandi gögn um veiruna til að reyna að meta þróun faraldursins. Sett eru fram nokkur spábil, sem gefa líkur á því fjöldi nýrra tilfella verði innan tiltekinna marka. Þannig sýnir dekksta svæðið á grafinu hér að neðan 50% spábil. Af því má ráða að hvern dag sem spálíkanið nær til eru yfir helmingslíkur á að hér greinist nýtt innanlandssmit þótt þróunin sé niður á við. Næstu daga er gert ráð fyrir að helmingslíkur séu á að fjöldi virkra smita á dag verði á bilinu 1-4.
Í spánni er horft til annarrar bylgju faraldursins, sem miðað er við að hafi hafist 23. júlí þegar smit greindist innanlands í fyrsta sinn í þrjár vikur. Síðan þá hafa 128 smit greinst innanlands.
Uppsafnaður fjöldi smita í annarri bylgju eftir þrjár vikur, þegar spánni sleppir, er líklegur til að vera um 150, en taldar eru 5% líkur á að fjöldinn fari yfir 300.
Ekki er talið tímabært að spá fyrir um fjölda spítalainnlagna á þessum tímapunkti en ástandið verður áfram vaktað og bendi gögn til hraðari vaxtar kann þeirri spá að vera bætt við er líkanið verður uppfært eftir viku.
Í samantektinni er önnur bylgjan einnig borin saman við þá fyrstu en í báðum tilvikum er miðað við þróun frá því fyrsta innanlandssmit greindist. Það gerðist 4. mars í fyrstu bylgju, en 23. júlí í annarri, sem fyrr segir.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd líkist upphaf annarrar bylgju upphafi þeirrar fyrstu þótt rétt sé að taka fram að óvissan er mikil þegar tölur eru svo lágar. Hundrað manna samkomutakmörkun var innleidd á tólfta degi fyrstu bylgju, en áttunda degi þeirrar síðari og segir í samantektinni að þau skjótu viðbrögð geti haft áhrif á það að leiðir skilja milli bylgnanna tveggja eftir um tólf daga.