Norska líftæknifyrirtækið Lytix Biopharma hefur gert samning við Verrica Pharmaceuticals um þróun og markaðssetningu á lyfjakandídatinum LTX-315.
Baldur Sveinbjörnsson, einn stofnenda Lytix, segir samninginn hljóða upp á sem svarar 15 milljörðum íslenskra króna. Með samstarfi við svo öflugt fyrirtæki verði hægt að hraða þróun nýrra meðferða við tveimur gerðum húðkrabbameins.
„Samingurinn er mikil viðurkenning á starfi okkar,“ segir Baldur. Samanlagt séu um 5 milljónir tilfella svona gerða húðkrabbameins í Bandaríkjunum og Evrópu á ári.
Markaðurinn með lyf við húðkrabbameini sé metinn á yfir 120 milljarða króna á ári. Baldur er prófessor við læknadeild Háskólans í Tromsø og starfar við höfuðstöðvar Lytix i Ósló, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.